Um 160 nemendur brautskráðir frá VMA á laugardag

Brautskráning nemenda frá Verkmenntaskólanum á Akureyri fer fram í Íþróttahöllinni laugardaginn 23. maí nk. kl. 10.00. Alls verða brautskráðir um 160 nemendur að þessu sinni, heldur fleiri en síðustu ár. Seinna sama dag, eða milli kl. 16 og 18 verður mótttaka í VMA, í tilefni af 25 ára afmæli skólans.  

Til stóð að brautskráningin færi fram í VMA og kom fram óánægja meðal nemenda með þá tillögum, eins og fram hefur komið á vef Vikdags. Þeir töldu að aðeins fengju tveir gestir að fylgja hverjum nemenda á brautskráningu, færi hún fram í skólanum. Þetta var ekki rétt, því samkvæmt upplýsingum Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara, átti að bjóða fjórum gestum að fylgja hverjum nemanda eins og venjulega. Jafnframt átti að hafa beina útsendingu á stóra tjaldinu í salnum í M01 fyrir þá sem ekki gátu verið í Gryfjunni. Sem fyrr segir hefur nú verið ákveðið að brautskráningin fari fram í Íþróttahöllinni.

Hjalti Jón sagði að það sem hafi breyst, sé að tekið hafi verið upp samstarf við Háskólann á Akureyri, samið hafi verið við Brekkuskóla, sem ekki þarf að nota Höllina í næstu viku, náðst hafi betri samningur við Bautann, auk þess sem skólinn fékk nemendur sína til liðs við sig við undirbúning.

Nýjast