Tvöfalt fleiri ferðamenn komu norður í janúar

Dettifoss.
Dettifoss.

Í janúar fjölgaði gistinóttum á hótelum á Norðurlandi um 52% frá því á sama tíma í fyrra en aukningin á landinu öllu var 34%. Erlendum ferðamönnum á Norðurlandi hefur fjölgað mikið á þessum árstíma og var aukningin til að mynda 40% í nóvember, 30% í desember og nú tvöföldun í janúar miðað við  sömu mánuði á fyrra ári. „Mest munar um fjölgun í komum Breta en einnig sjáum við vöxt í gistinóttum Bandaríkjamanna og Dana. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 21% á landinu öllu í janúar miðað við janúar í fyrra en á sama tíma var fjölgun íslenskra ferðamanna 38% á Norðurlandi svo greinilegt er að Norðurland er einnig  vinsæll áfangastaður innlendra ferðamanna,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir verkefnastjóri Air66.

Markaðsskrifstofa Norðurlands hefur að sögn Arnheiðar lagt áherslu veturinn  á í kynningu sinni á svæðinu og sérstök áhersla hafi verið lög á að kynna svæðið fyrir Bretum og Dönum með það að markmiði  að sett verði upp reglulegt millilandaflug frá Akureyrarflugvelli til þessarra landa. „Nú í sumar verða ýmsir valkostir fyrir þá sem hyggja á flug erlendis en hægt er að fljúga með beinu tengiflugi til allra áfangastaða Icelandair í gegnum Keflavík. Þá verður flogið frá Akureyrarflugvelli í vélum Flugfélags Íslands og skipt um vél í Keflavík án þess þó að farþegar þurfi að tékka sig inn aftur. Einnig býður Iceland Express beint flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar í júlí og ágúst. Að auki mun Flugfélagið Ernir hefja áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Húsavíkur frá  miðjum apríl,“ segir Arnheiður. 

Niðurstöður könnunar meðal erlendra ferðamanna sem gerð var sl. sumar á vegum Ferðamálastofu sýna að Norðurland er vinsæll áfangastaður erlendra ferðamanna en 42% þeirra sem fóru í gegnum Keflavíkurflugvöll heimsóttu svæðið. Dvalartími erlendra ferðamanna á Norðurlandi er sambærilegur við dvalartíma í Reykjavík og dvelja flestir 3-4 nætur á Norðurlandi. Þegar skoðaðir voru vinsælustu áfangastaðir á landinu voru fjórir af tólf stöðum sem nefndir voru á Norðurlandi en það eru Akureyri, Mývatn, Húsavík og Ásbyrgi eða Dettifoss. Aðrir vinsælir staðir á Norðurlandi eru Skagafjörður, Hvammstangi, Hvítserkur, Melrakkaslétta og Þórshöfn en stærstur hluti ferðamanna kemur til að upplifa náttúru landsins.

 Árið 2011 var 18% vöxtur í brottförum erlendra ferðamanna á Keflavíkurflugvelli og er mikil aukning í framboði á flugi þar nú í sumar. Með átakinu Ísland allt árið er lögð áhersla á kynningu á landinu sem heilsársáfangastað og er mikill styrkur í þeirri markaðssetningu fyrir landið. „Við höfum því  tilefni til bjartsýni á áframhaldandi vöxt í ferðaþjónustu á landinu öllu sem skilar sér vel hingað norður,“ segir Arnheiður.

Nýjar upplýsingar um ferðahegðun á Norðurlandi verða birtar á ráðstefnu á Hótel KEA föstudaginn 9. mars kl. 10 en ráðstefnan er á vegum Markaðsstofu Norðurlands, Air 66N og SAF og opin öllum.

 

 

 

Nýjast