Það hvernig okkur tekst til við að byggja upp sterkt og kraftmikið atvinnulíf fer að mestu eftir þeim mannauði sem við höfum yfir að ráða. Á þeirri vegferð eiga nýsveinarnir 23, sem Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík heiðraði um liðna helgi fyrir afburðanámsárangur, örugglega eftir að skipa sér í fylkingarbrjósti, segir í frétt frá iðnaðarráðuneytinu. Tveir þessara nýsveina koma úr Verkmenntaskólanum á Akureyri, þeir Dagur Hilmarsson sem lærði rafvirkjun og Grétar Mar Axelsson sem lærði kjötiðn. Jafnframt viðurkenningum nýsveina var Ragnar Axelsson, ljósmyndari, tilnefndur og heiðraður sem iðnaðarmaður ársins og fyrirtækin GO Form Design Studio og Brúnás Innréttingar hlutu viðurkenningu fyrir samstarf hönnuða og framleiðenda. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík var stofnað 1867 og fagnar nú 145 ára afmæli. Tilgangur þess frá upphafi er að efla menningu og menntun iðnaðarmanna og styrkja stofnanir sem starfa í þeirra þágu.