Tugir fólks heimilislausir á Akureyri

Erfiðlega hefur gengið að finna hentugan stað fyrir smáhýsi fyrir heimilislausa á Akureyri.
Erfiðlega hefur gengið að finna hentugan stað fyrir smáhýsi fyrir heimilislausa á Akureyri.

Alls eru 41 einstaklingur heimilislaus á Akureyri samkvæmt úttekt bæjaryfirvalda. Þar af eru 32 karlar og 9 konur. Þrettán af þessum einstaklingum eru í langtímabúsetuúrræði en 28 á götunni. Sigríður Huld Jónsdóttir bæjarfulltrúi hóf umræðu um málið á síðasta bæjarstjórnarfundi og gerði grein fyrir þessum tölum um fjölda heimilislausra.

Bæjaryfirvöld á Akureyri óskuðu eftir upplýsingum frá félagsráðgjöfum á fjölskyldusviði, starfsfólki búsetusviðs og lögreglunnar á Akureyri til að áætla hversu margir heimilislausir væru í bænum. Mikil umræða hefur verið um heimilislausa eftir að Akureyrarbær fyrirhugaði að reisa smáhýsi fyrir fólkið í nýju hverfi í Naustahverfi en þær fyriráætlanir mættu hörðum viðbrögðum íbúa í hverfinu. Því var hætt við þær áætlanir. Áður hafði staðsetning smáhýsa við Norðurgötu á Oddeyrinni verið harðlega gagnrýnd þar sem staðurinn þótti ekki nægilega góður fyrir heimilislausa.

Nauðsynlegt að setja upp áfangaheimili

Sigríður Huld sagði mikilvægt að koma upp áfangaheimili á Akureyri til þess að taka á móti fólki sem er að koma úr meðferð. Með því sé hægt að koma í veg fyrir að fólk endi á götunni. „Það eru engin úrræði í boði í bænum fyrir fólk sem kemur úr meðferð og þeirra bíður oft bara gamli dópsalinn við hornið. Þessu verður að breyta,“ sagði Sigríður Huld.

Þeir bæjarfulltrúar sem tóku til máls á fundinum voru allir sammála um að áfangaheimili væri gríðarlega mikilvægt og fari þurfi í þá vinnu sem fyrst.

Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi sagði umræðuna um smáhýsi vera búna að veltast vandræðalega lengi í kerfinu. Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs lagði til að hugaði yrði að grunnvinnu; forvörnum, og auka sérstaklega forvarnir hjá yngri börnum og farið verði m.a. inn í grunnskólana með fræðslu.

Preben Jón Pétursson bæjarfulltrúi lagði til að byggð yrðu smáhýsi við Norðurtanga eins og til stóð í fyrstu á meðan leitað væri varanlegri lausna. „Setjum þessu smáhýsi niður í stað þess að gera ekki neitt. Því það getur tekið 2-3 ár að leysa málið,“ sagði Preben Jón.

-þev

 

Nýjast