Til eru þær skoðanir að hinn sögulegi Jesú hafi örugglega verið til og gengið hér á jörðinni, það sé reyndar vel hægt að trúa á það sem hann sagði og gerði á sínum tíma. En þegar kemur að upprisunni, sem er víst megininntak páska og grundvöllur kristinnar trúar, þá er fremur numið staðar, staðfastur efasemdasvipur settur upp, og orðin hins vegar á ég erfiðara með að trúa á upprisuna hljóma sem niðurlag.
Þessar skoðanir eiga alveg rétt á sér og á margan hátt mannssálinni eðlilegar, ég þekki það sjálfur að geta verið á þessum stað í trúarþönkum. Efasemdir eru af hinu góða séu þær þá nýttar sem drifkraftur í trúarleit, þekking og löngun til að vita meira virkar þar sem næring og gerir það á flestum ef ekki öllum sviðum tilverunnar.
Ögrandi páskaboðskapur
Á sama hátt eru efasemdir jafn slæmar séu þær einvörðungu nýttar til að setja punktinn fyrir aftan amenið, leggjast í sófann og stara út í loftið og sannfæra sjálfan sig um að það sé óþarft að hugsa meira um þennan Jesú og hvað þá að hann hafi risið upp frá dauðum, páskarnir séu bara enn ein ástæðan til að borða meira súkkulaði. En síðan er það sannfæringin, sem í þessum efnum getur í raun verið miklu varasamari en efasemdirnar, því þá er svo stutt í hrokann, þá er svo stutt í þetta viðhorf að ég sé meiri en þú, já í þetta viðhorf fariseans, sem sagði í bæn sinni við hliðina á tollheimtumanninum í musterinu forðum:
Ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.
Það er reyndar mjög góð byrjun að trúa á hinn sögulega Jesú og verk hans. Allt sem kom fram í lífi hans var undirbúningur að þessu undri páskanna, sem hefur ögrað mannsandanum í ófáar aldir og gerir enn. Þessi stóra ráðgáta heldur okkur endalaust við efnið. Það virðist jú líka vera þannig að mannsandinn brynji sig fyrir mörgu því sem ögrar honum og upprisan þarf ekki að vera þar neinn eftirbátur nema síður sé. Það eitt getur hæglega gert okkur heldur dofin fyrir inntaki páska jafnvel á sjálfri hátíðinni, sem er nota bene miklu meiri en jólin í trúarlegum skilningi.
Jesús gerði heldur ekkert ráð fyrir því sjálfur að mannssálin myndi meðtaka upprisuboðskapinn sisona. Hann sá t.a.m. ástæðu til þess að spyrja Maríu vinkonu sína, eftir að hann hafði lýst því yfir frammi fyrir henni að hann sjálfur væri upprisan og lífið, hvort hún tryði því, trúir þú þessu spurði hann beint. María bar fram játningu, en sumir líka sviku, aðrir afneituðu, það voru ófáar krísur aðstandenda Jesú á þessari grýttu leið að tómu gröfinni, og við erum að tala um samtíðarfólk Jesú og hví ætti því ekki hinn upplýsti nútímamaður rúmum 2000 árum síðar að upplifa þá krísu líka?
Mér líður þó þannig gagnvart upprisunni að hún sé sjálft smiðshöggið á ævi og verkum Jesú, hún undirstriki tilgang veru hans þá og nú, án hennar sé allt það sem Jesús stendur fyrir marklaust og ónýtt, sé svona eins og egg án unga, fúlegg. Ég trúi því að okkur sé falið það verk að túlka upprisuna inn í tilveru okkar og líf áfram og bera það áfram milli kynslóða.
Sannleikur jafnframt í hinu óvinsæla
Ég skynja m.a. kjark í upprisunni, að þaðan berist hin skýra hvatning að við eigum að halda áfram þrátt fyrir hindranir og áföll í lífinu, og í því sambandi skiptir samstaða mjög miklu máli og þar fléttast inn í kjarkurinn til að standa með náunganum bæði í helsi hans og frelsi, samstaða sem er hvorki lituð meðvirkni né hjarðhegðun, heldur einkum því mikilvæga hlutverki að gefa af sér og reynslu sinni umbúðalaust en með nærfærni.
Það er reyndar töluvert ögrandi verkefni, ég tala nú ekki um fyrir hið svokallaða læk samfélag, þar sem jáyrði og vinsældir hljóma hátt og yfirskyggja gjarnan það sem er óþægilegt og óvinsælt. Boðskapur upprisunnar segir okkur að hlýða einnig á óvinsælu raddirnar, því þar má jú sömuleiðis blákaldan sannleikann finna og heyra.
Ætli við verðum ekki bara að bera þetta saman við muninn á óþægindum upprisunnar annars vegar og þægindum páskaeggjaátsins hins vegar, og þá má vera gott að hugleiða það um leið hvort páskaeggið með ungann á toppi, hið nýja líf, sæki ekki einmitt áhrif sín í upprisuboðskapinn títtnefnda, sem virðist birtast okkur í svo ótal mörgum myndum á lífsleiðinni.
Guð gefi bjarta og innihaldsríka páskahátíð!
Sr. Bolli Pétur Bollason, Laufási