Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins 17. júlí.
Feðgarnir Ian Stephen og Sean sonur hans komu til Húsavíkur á skútunni Silver Moon í síðustu viku eftir ævintýralega siglingu frá Stornoway sem er stærsti bærinn á Suðureyjum (e. Hebrides) í Skotlandi. Ian lét þarna áratuga gamlan draum rætast um að feta í fótspor norrænna Víkinga sem sigldu þessa leið á landnámsöld.
Stornoway er kannski ekki bær sem flestir Húsavíkingar þekkja vel til. Þó er einn Húsavíkingur sem getur kallað staðinn sinn heimabæ, það er Jane okkar Annisius en hún er einmitt systir Ians. Því er þessi ævintýraferð Silfur Tunglsins með sterka Húsavíkurtengingu.
Þess má geta að sonur Jane, Daniel Annisius sem ættleiddur var frá Indlandi heimsótti fyrir nokkru síðan barnaheimilið sem hann var á þegar hann var ungabarn og rakti slóðina að rótum sínum. Vikublaðið sagði frá því ævintýri á sínum tíma en þá var einmitt frændi Daníels með í för, fyrrnefndur Sean.
Á fimmtudag í síðustu viku [11. júlí] kom húsvíska fjölskylda Stephen-feðga saman við Húsavíkurhöfn; Jane og maðurinn hennar Matthias Annisius ásamt tveimur barna sinna, Mörtu, Daníel, eiginkonu hans Liu Alexiu og Lunu dóttur þeirra. Blaðamanni Vikublaðsins var boðið með í för en hópurinn hélt út á Skjálfanda í blíðskapar veðri á einum Rib-báta GG hvalaferða, Ömmu Helgu til að taka á móti skútusjómönnunum og fylgja þeim síðasta spölinn í land. Að sjálfsögðu notuðum við tækifærið og heilsuðum upp á vinalega og forvitna höfrunga, skoðuðum Hákarlahelli úr návígi og sigldum undir Húsavíkurvita.
Daníel var að vonum spenntur að hitta frændur sína frá Skotlandi og sagðist hafa fylgst vel með ferð þeirra til Íslands. „Þeir sigldu í síðustu viku frá Stornoway þaðan sem mamma kemur og til Seyðisfjarðar, Aðalmarkmiðið þeirra með ferðinni var að sigla til Húsavíkur en kemur í ljós hvort þeir fari svo hringinn umhverfis landið eða ekki. Þetta hefur verið draumur frænda míns í 20-30 ár og létu þeir feðgar loks verða af þessu núna. Siglingin hefur gengið vonum framar og fengið gott veður,“ sagði Daníel og bætti við að honum þætti þetta skemmtilegt ævintýri hjá þeim. „Bæði fjölskyldusagan frá Skotlandi og að sigla hingað en líka að feta í fótspor okkar fornu víkinga sem sigldu þessa leið frá Suðureyjum (Hebrides) og tengingar við Ísland.“
Það voru fagnaðarfundir úti á miðjum Skjálfandaflóa þegar Amma Helga renndi upp að Silver Moon rétt utan við Lundey og allir áhafnarmeðlimir stóðu á dekki og veifuðu vígreifir eins og víkingar. Þeir voru á rólegu stími og það tók góðan hálftíma að fylgja þeim til hafnar þar sem fjölskyldurnar sameinuðust.
Daginn eftir var blaðamanni Vikublaðsins boðið um borð í Silver Moon en þá höfðu feðgarnir hvílst og notið samveru með húsvískum ættingjum sínum.
„Ég held að pabbi minn hafi alltaf verið sjóari og þar af leiðandi varð ég það líka. Systir hans, Jane kom oft til Skotlands á meðan afi minn var enn á lífi. Hún tók börnin með sér, Daniel og litlu Mörtu. Þannig að Ísland var alltaf þessi litli staður sem við vorum alltaf að heyra um og pabba dreymdi alltaf um að sigla þangað,“ segir Sean en faðir hans er þekktur rithöfundur í Skotlandi og starfaði einnig um árabil hjá strandgæslunni.
Eins og áður hefur komið fram sigldu þeir feðgar leið sem var algeng á meðal Víkinga til forna en hvernig ætli sé að sigla þetta á nútímalegri lítilli skútu?
„Fyrir mig er þessi leið heillandi. Þú hefur kannski heyrt um Tim „Severin og Brendan-siglinguna og hugmyndina um „stepping stones“ leiðina – Hebrides, Færeyjar, Ísland, Grænland og svo áfram til Ameríku,“ spyr Ian og blaðamaður kinkar hikandi hikandi kolli.
Þarna vísar Ian til ævintýralegrar ferðar sem Tim Severin, breskur landkönnuður og rithöfundur, fór árið 1976–1977 til að kanna hvort írskur munkur að nafni heilagur Brendan gæti hafa siglt yfir Atlantshafið til Ameríku á 6. öld eins og kenningar segja til um – löngu áður en Leifur heppni eða Kólumbus fóru þangað
Til að prófa þessa kenningu smíðaði Severin og áhöfn hans bát sem var nákvæm eftirlíking af þeim sem munkar gætu hafa notað á þeim tíma – bát úr 49 uxahúðum, saumaður saman og dreginn yfir viðarramma. Þeir sigldu frá Brandon Creek á Írlandi til Nýfundnalands í Kanada og komust alla leið, þrátt fyrir storma og ísjaka sem rifu gat á bátinn.
„Ferðin sannaði ekki að heilagur Brendan hafi raunverulega farið þessa leið, en hún sýndi að það var mögulegt – að slíkur bátur hefði getað komist yfir Atlantshafið. Bókin The Brendan Voyage lýsir þessari ferð í smáatriðum og hefur verið þýdd á tugir tungumála,“ bætir Ian við og segir stoltur frá að hann hafi hitt þennan Sverin á árum áður og spurt mikið út í leiðangurinn.
„Ég fékk það tækifæri að hitta Tim Severin og taka viðtal við hann. Ég las bókina hans aftur og hún var enn betri en áður – hún heillaði mig. Þeir smíðuðu bát úr leðri og endursköpuðu það sem munkar gætu hafa siglt á til Ameríku. Þannig að sigla þessa leið á svona báti eins og við erum á er eins og að borða kökusneið í samanburði,“ segir Ian og hlær.
Reynsla Ian úr strandgæslunni nýttist vel í ferðinni og þá er Sean vanur brimbretta siglingum en þannig hafa þeir feðgar mismunandi reynslu af sjávarstraumum sem gerði þá að fullkomnu teymi. „Ég vissi, því ég var í strandgæslunni, að maður má ekki vanmeta straumana. Stærsta áskorunin var að komast að heiman – það var erfiðast, að komast norður af Stornoway,“ segir Ian áður en Sean tók orðið.
„Það sem skiptir máli á sjó er að treysta bátnum sínum. Að vera úti á hafi er ekki vandamál – báturinn flýtur hvort sem hann er nálægt landi eða langt úti á hafi. Reyndar, ef veðrið er slæmt, þá eru oft hættulegustu aðstæðurnar nær landi, á meðan úti á hafi hefurðu plássið með þér í liði. Við ströndina eru helstu áskoranirnar.
Lykillinn að góðri siglingu er að komast frá landi. En ég er ekki að segja að maður upplifi sig ekki ansi smáan þegar maður siglir um úthafið,“ segir Sean og svo hlæja feðgarnir.
Í siglingu Severin var siglt til Hebrides og þaðan til Færeyja og feðgarnir segja að það hafi komið til greina hjá þeim líka. Þeir hafi fylgst vel með veðurspám sem sífellt verða betri en á endanum var ákveðið að sigla beint til Íslands enda aðal markmið siglingarinnar að ná til Húsavíkur.
„Siglingin frá Hebrides til Húsavíkur hefur verið draumi líkust – og miklu hraðari en við bjuggumst við. Við þurftum að bíða í viku eftir því sem við köllum „veðurglugga“, en síðan við fengum hann hefur veðrið ekki stoppað okkur – við höfum getað siglt á hverjum degi og í raun mun hraðar en við bjuggumst við. Við lögðum af stað að morgni þriðjudagsins 1. júlí. Það tók okkur tíu daga að komast til Íslands, og það var án þess að flýta okkur. Við stoppuðum á Austfjörðum og Raufarhöfn og vorum ekki að flýta okkur,“ lýsir Sean og bætir við að helstu vandræðin sem þeir lentu í hafi verið lognið. Það hafi þurft að sigla mun lengur á vélarafli en þeir reiknuðu með.
Oft er sagt að hafið gefur og hafið tekur en í tilfelli feðganna var það sem betur fer bara að gefa og flugustöngin var með í för. „Við veiddum í kvöldmatinn oftar en einu sinni á leiðinni. Einn úr áhöfninni er vanur fluguveiðimaður – hann veiddi bleikju. Ég hef líka mikinn áhuga á fluguveiði og af ekki alveg óeigingjörnum ástæðum hélt ég honum félagsskap í veiðinn,“ segir Ian og hlær. Þeir hafi ekki verið að flýta sér og tekið sér tíma til að ræða málin við heimafólk á bryggjunni á Seyðisfirði og Raufarhöfn.
„Við tókum okkur tíma til að skoða okkur um í höfnum og áttum skemmtileg samtöl á bryggjunum. Ferðin var frekar hröð – við áttum fjóra daga þar sem við sigldum hratt.
Eins og gengur og gerist notuðum við vélina ef seglin dugðu ekki. Meðalhraðinn var um sex hnútar. Þetta er ekki stór bátur, en hann er frekar fljótur,“ segir Sean og faðir hans tekur þá orðið og segir aðeins frá undirbúningi ferðarinnar.
„Í fyrra sigldum við saman eftir vesturströnd Írlands til að undirbúa okkur – það var krefjandi Atlantshafssigling. Við sáum mun stærri báta en okkar halda á þetta haf en snúa við tveimur tímum síðar. Þarna lærðum við um styrkleika bátsins og líka hvað við þyrftum að bæta til að undirbúa hann fyrir þessa ferð. Sean sá um afturhluta bátsins og ég um framhlutann. Sean útvegaði þetta frábæra tæki – sjálfstýring sem stýrir eftir vindi. Nauðsynlegt fyrir úthafssiglingar,“ útskýrir Ian og bætir við að vestur af strönd Írlands sé stórt haf, jafnvel í logni.
„Vesturströndin er fræg fyrir stórar öldur – atvinnubrimbrettakapppar frá Hawaii koma þangað reglulega til að eiga við þessar stóru öldur,“ segir Sean með glampa í augum en viðurkennir að brimbrettið hafi þó ekki verið með í þessari ferð.
„Surf var lykilorð í þessari ferð því Sean er surfari – en ég er það ekki. En kannski nýtist reynsla mín úr strandgæslunni í hvernig ég vinn með strauma og strákurinn hefur sína þekkingu úr brimbrettasportinu. Ég myndi segja að við séum mjög gott teymi,“ segir Ian.
„Þú spurðir áður hvernig það kom til að við fórum í þessa siglingu. Pabbi var náttúrlega í Strandgæslunni og mikið í siglingum. Ég og Daníel höfum líka alltaf verið góðir vinir og augljóslega frændur. Ég kom til Íslands í fyrsta sinn fyrir 3-4 árum síðan, þá hafði ég ekki hitt Daníel í um það bil 10 ár. Ég vissi samt alltaf að við værum góðir vinir en þarna tengdumst við mun sterkari böndum. Eins og þú veist þá er Daníel ættleiddur frá Indlandi en ég hef einmitt ferðast mikið um Indland og elska landið. Og í gegnum það tengdumst við enn sterkari böndum. Ég fór líka með honum fyrir 2-3 árum til Kalkútta þar sem hann var að elta uppi rætur sínar,“ segir Sean og vísar þar í ferðalag sem fjallað var um á sínum tíma í Vikublaðinu. Þetta er því í annað sinn sem þessi geðþekki Skoti ratar á síður Vikublaðsins. Geri aðrir Skotar betur.
„Þessi ferð steypti vináttu okkar í fast mót og á þeim tíma fór pabbi líka að tala meira um að hann langaði til að sigla til Húsavíkur. Þannig að þegar við fengum okkur bátinn saman og prófuðum hann á vesturströnd Írlands, þá litum við bara á hvorn annan og ákváðum að slá til,“ útskýrir Sean en síðasta árið hefur farið í stífan undirbúning og þeir hafa líka notið liðsinnis frá Stefáni Guðmundssyni hjá Gentle Giants við undirbúninginn.
„Þetta er draumur pabba, en í gegnum vináttu mína við Daníel hefur þessi draumur orðið sameiginlegur draumur okkar feðga. Það er ótrúleg tilfinning að vera loksins búnir að koma þessu í verk og þetta er búið að vera þvílíkt ævintýri. Þegar við sigldum inn í Skjálfanda sáum við líka ótrúlega mikið af hvölum, hnúfubaka og hvað eina. Daníel segir að svona sé þetta alltaf á þessum slóðum,“ segir Sean og hlær.
Augnablikið þegar Daníel kom með alla fjölskylduna út á flóann til að taka á móti okkur var æðislegt. Að fá tækifæri til að ljúka þessari siglingu með þessum hætti er ólýsanlegt,“ segir Sean að lokum.