Lífi eldri borgara er misskipt, margir hafa það mjög gott, geta átt sitt eigið húsnæði og veitt sér að ferðast eða annað sem þeir hafa áhuga á. Það er vel og frábært að geta þetta eftir langan vinnudag um ævina.
Margir eldri borgarar hafa það sæmilegt og geta veitt sér ýmislegt sem þarf til að lifa nokkuð eðlilegu lífi án þess að berast mikið á.
En það er því miður alltof stór hópur eldri borgara sem er með heildartekjur undir þeim lágmarkstöxtum sem greiða má 18 ára unglingum á almennum vinnumarkaði. Hann er í dag rúmar 452.000 kr. á mánuði.
Það sjá allir að það er mjög erfitt að lifa eðlilegu lífi á þessum tekjum. Það er staðreynd að hundruð eldri borgara eru einungs með grunnlífeyri frá Tryggingastofnun sem í dag er rúmlega 347.000 kr. Þá eru rúmlega 300.000 kr. eftir til ráðstöfunar þegar búið er að taka skattinn af.
Oft eru þessir sömu einstaklingar að leigja íbúðarhúsnæði og það er ekki óalgengt að 50-80% af tekjunum fari í leigu. Hvað er þá eftir til að kaupa í matinn eða aðrar nauðsynjar?
Hvað eru stjórnvöld að gera til að hjálpa þessu fólki sem hefur það verst og líður skort?
Því ber að fagna að frumvarp um eingreiðslu til aldraðra í desember er að fara í gegnum þingið og er sú upphæð rúmlega 73.000 kr. fyrir þau sem eru með minna en 100.000 kr. á mánuði frá öðrum en TR.
Þetta mun hjálpa mörgum í desember, en hvað um aðra mánuði ársins? Það er ekki nóg að geta skrimt einn mánuð á ári og eiga svo varla eða ekki fyrir nauðsynjum aðra mánuði.
Um næstu áramót mun grunnlífeyrir TR hækka um 5.20% eða rúmlega 18.000 kr. á mánuði. Lægstu taxtar á vinnumarkaði munu hækka um 23.750 kr. og mun þá bilið á milli launataxta og grunnlífeyris verða rúmlega 110.500 kr. á mánuði. Þetta bil eykst stöðugt.
Það er samdóma álit verkalýðshreyfingarinnar að ekki sé hægt að lifa á lágmarkstöxtum. Er hægt að bjóða eldri borgurum upp á grunnlífeyri sem er á annað hundrað þúsund krónum lægri en launataxtinn?
Er auðveldara að lifa af lágum tekjum þegar fólk er eldra? Svarið er nei fyrir flesta.
Hverjar eru efndir loforða um að stoppa kjararýrnun eldri borgara, sem talað er um í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar?
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um að tengja grunnlífeyri við launavísitölu og er það vel og mun vonandi gera það að verkum að eldri borgarar fái meiri hækkanir á sinn grunnlífeyri.
Hækkunin kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2027 eða eftir rúmt ár. Eiga eldri borgarar að sætta sig við að mögulegur kaupauki komi ekki fyrr en eftir ár? Er ríkistjórnin að tala meira um hlutina en að efna þá?
Frítekjumarkið verður hækkað um næstu áramót um fimm þúsund krónur og verður þá kr. 41.500 kr. Þetta er upphæðin sem fólk má hafa í lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur á mánuði án skerðingar á greiðslum frá TR. Hver króna eftir þessa upphæð skerðir grunnlífeyrir TR um 45 aura.
Þessi aukning á frítekjumarkinu mun skila eldri borgurum heilum 1.525 kr. í vasann eftir skatta og skerðingar. Eru þessar greiðslur TR til þeirra eldri borgara sem minnst hafa boðlegar? Ég bara spyr.
Í starfi mínu sem formaður Landsambands eldri borgara hef ég undanfarið verið að heimsækja félögin sem eru í landsambandinu, en þau eru 59 og með um 40.000 félaga.
Á fundum með þeim hefur komið fram að fólk er vonsvikið yfir því hvað gengur illa að efna loforðin frá síðustu kosningum, þar sem eldri borgurum var lofað að rífa alla upp úr fátæktargildrunni. Þeim finnst vanta efndir í störfum núverandi ríkistjórnar.
Á þessum fundunum hefur einnig komið fram að almennings álitið virðist vera komið þangað að allir eldri borgarar hafi það svo gott að það þurfi ekki að gera neitt fyrir þá. Þetta hefur haft áhrif inn í pólítíska umræðu. Þar er vitnað í fréttir um að „allir“ séu að fara til útlanda og horft í tásumyndirnar frá Tene og öðrum sólarströndum. Það er sorglegt að menn skuli jafnvel trúa þessu þegar talað er um „allir“ geti þetta.
Ég er viss um að mjög margir þekkja einhverja eldri borgara sem geta ekki veitt sér t.d. að fara í bíó eða kaupa jólagjafir handa barnabörnunum, þurfa jafnvel að leita til hjálparstofnana til að fá mat.
Hættum að alhæfa og viðurkennum að mörg þúsund eldri borgara þurfa aðstoð, ekki bara einn mánuð á ári heldur alla tólf mánuðina.
Við í Landssambandinu fögnum því að menn fái auknar greiðslur í desember en skorum á ríkistjórnina að efna loforðið í stjórnarsáttmálanum um að gera sérstakar ráðstafanir fyrir þá sem hafa það verst.
Það er ekki nóg að setja loforð á blað, það verður líka að efna þau.
Björn Snæbjörnsson formaður Landssambands eldri borgara