„Game of Thrones“ langoftast nefnd sem áhrifavaldur

Mynd/Hac.is
Mynd/Hac.is

Út er komin skýrsla með niðurstöðum spurningakönnunar sem Þekkingarnet Þingeyinga framkvæmdi meðal erlendra ferðamanna sumarið 2024 í Mývatnssveit. Hún varpar ljósi á ferðavenjur, upplifun og helstu áhrifavalda í ferðavali gesta. Niðurstöðurnar sýna að svæðið heldur áfram að laða að sér fjölbreyttan hóp gesta hvaðanæva að úr heiminum og að náttúran er enn í aðalhlutverki. Greint er frá þessu á heimasíðu Þekkingarnetsins.

Sérstaklega voru skoðuð áhrif kvikmynda og sjónvarpsefnis á ferðaval gesta en niðurstöðurnar sýna að kvikmyndir og sjónvarpsefni geta haft áhrif þó þau séu mismikil eftir þjóðerni og áhugasviði. Um 28% þátttakenda sögðust einhvern tímann hafa valið áfangastað út frá kvikmynd eða sjónvarpsþætti og 23% voru sammála því að slíkt efni hefði áhrif á val þeirra almennt. Þegar spurt var sérstaklega um Mývatnssveit sögðust þó aðeins 8% hafa orðið fyrir áhrifum af kvikmynda- eða sjónvarpsefni við ákvörðun um að heimsækja svæðið.

„Game of Thrones“ var langoftast nefnd sem áhrifavaldur, enda voru atriði úr þáttunum tekin upp í Mývatnssveit. Einnig komu fram heimildamyndir og Eurovision-myndin sem tekin var á Húsavík. Þeir sem urðu fyrir áhrifum nefndu helst náttúrufegurð, ævintýri og sögulega tengingu í myndum og þáttum sem helstu áhrifaþætti. Þetta bendir til þess að kvikmyndatengd markaðssetning geti haft áhrif á ákveðna hópa ferðamanna og styrkt ímynd svæðisins enn frekar sem áfangastaðar.

Þessar niðurstöður og fleiri má finna í útgefinni skýrslu á heimasíðu Þekkingarnetsins.

Nýjast