Akureyri iðar af lífi alla verslunarmannahelgina

Mynd: Ein með öllu/Facebook.
Mynd: Ein með öllu/Facebook.

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin á Akureyri um verslunarmannahelgina, dagana 31. júlí til 3. ágúst.

Í ár flytur hátíðin sig frá Samkomuflötinni yfir á Akureyrarvöll – glæsilegt og rúmgott svæði í hjarta bæjarins, þar sem tívolí, tónleikar og aðrar uppákomur fá að njóta sín til fulls.

Akureyri mun iða af lífi alla helgina og ættu öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Í boði verða fjölskyldu-, barna-, og kvöldskemmtanir víðsvegar um bæinn. Landsþekktir listamenn stíga á svið, tvö tívolí setja svip sinn á bæjarlífið og boðið verður upp á skógardag í Kjarnaskógi, sparitónleika og margt annað.

Sparitónleikarnir á sunnudeginum eru stærstu tónleikar helgarinnar. Þar koma fram Herra Hnetusmjör, Friðrik Dór, Kristmund Axel, Aron Can og Íþróttaálfurinn, auk frábærs tónlistarfólks frá Norðurlandi, eins og Saint Pete, hljómsveitin Skandall, sem sigraði nýverið Söngkeppni framhaldsskólanna, Rúnar Eff, Tinna Óðins og Ágúst Þór. Eftir tónleikana og flugeldasýningu taka skemmtistaðir bæjarins við og halda stuðinu áfram langt fram á nótt.

Á laugardagskvöldinu fara tónleikarnir Öll í einu fram á Akureyrarvelli – sannkölluð tónlistarveisla þar sem fram koma Friðrik Dór, Emmsjé Gauti, Birnir, GDRN, Páll Óskar og Á Móti Sól. Miðar eru seldir á tix.is, en frítt er inn fyrir 16 ára og yngri.

Á Græna Hattinum verður lífleg dagskrá þar sem meðal annarra koma fram Magni, Matti Papi, Hr. Eydís og Hera Björk. Í Akureyrarkirkju verður boðið upp á Óskalagatónleika með þeim Óskari Péturssyni, Eyþóri Inga Jónssyni og Ívari Helgasyni þar sem þeir flytja óskalög tónleikagesta. Í Sjallanum verður svo slegið í veglega veislu með Birni, Emmsjé Gauta og Páli Óskari, Herra Hnetusmjör, Friðrik Dór, Aron Can, Kristmundur Axel og Saint Pete.

Á Ráðhústorgi verður markaðsstemning á föstudag, laugardag og sunnudag þar sem handverk, listmunir og nýjar og gamlar vörur verða til sölu. Götubitar landsins verða á svæðinu með girnilegan mat og Mömmur og Möffins fagna 15 ára afmæli sínu á bílaplani Landsbankans.

Hlaupagarpar geta tekið þátt í hlaupamótinu Súlur Vertical, þar sem þrjár vegalengdir eru í boði, og þau yngri í Krakkahlaupi Súlur Vertical, sem fer fram í Kjarnaskógi á föstudeginum. Söfn bæjarins verða að sjálfsögðu opin um helgina svo nóg verður um menningu og list.

Alvöru hátíð má að sjálfsögðu ekki vanta tívolí en bæði Sprell Tívolí og Taylor’s Tivoli hafa boðað komu sína yfir helgina þar sem m.a. fallturn, hringekja, hoppukastalaland og margt fleira verður í boði frá fimmtudegi til sunnudags.

Nýjast