Hákarl gladdi hvalaskoðendur í Eyjafirði

Lárus Anton Freysson, skipstjóri hjá Arctic Sea Tours segir farþegana hafa verið í sjöunda himni með…
Lárus Anton Freysson, skipstjóri hjá Arctic Sea Tours segir farþegana hafa verið í sjöunda himni með hákarla"árásina". Mynd/Arctic Sea Tours.

Skipstjóri hjá Arctic Sea Tours á Dalvík lætur vel af sumrinu það sem af er vertíðar í samtali við blaðamann. Hann segir mikið af hval vera í Eyjafirði og hvalaskoðun sjaldan verið vinsælli.

Farþegar um borð hjá honum fengu heldur betur upplifun á dögunum þegar stærðarinnar sjávarskepna heilsaði upp á farþega hans með því að synda með opinn kjaftinn upp við yfiborðið við hlið bátsins. Þar var þó ekki um hval að ræða heldur stærsta fiskinn sem finnst við Íslandsstrendur, nefnilega beinhákarl. Farþegar í þeirri ferð fengu því óvænt sjaldgæfa upplifun í kaupbæti.

Lárus Anton Freysson skipstjóri Arctic Sea Tours segir í samtali við Vikublaðið að hann hafi síður en svo átt von á því að rekast á hákarl þegar hann lagði úr höfn þennan daginn en að farþegarnir hafi svo sannarlega kunnað að meta athyglissýkina í honum.

„Já, þetta er stór fiskur sem heilsaði upp á okkur. Þetta upplifum við ekki oft. Ég hef ekki séð beinhákarl í Eyjafirði í 16 ár. Farþegarnir voru himinlifandi eins og reyndar heyrist í myndbandinu sem ég tók," segir Lárus.

Myndbandið sem Lárus tók póstaði hann á Facebook og TikTok síður fyrirtækisins þar sem það hefur fengið milljónir áhorfa. „Við erum búin að vera á fullu að svara fyrirspurnum við myndböndin síðan,“ segir hann.

Lárus segir jafnframt að vertíðin gangi vonum framar og alltaf eitthvað að sjá. „Þetta er búið að vera geðveikt og allt krökkt af hval,“ segir Lárus að lokum.

Þess má geta að þó beinhákarl sé næststærsta fisktegund heim og sú stærsta við Íslandsstrendur en hann getur orðið allt að 12 metra langur, þá stafar engin hætta af honum. Beinhákarlinn er meinlaus og étur örsmátt dýrasvif með því að sía það úr sjónum í gegnum tálknaboga sína. Hann sést oft synda rólega í yfirborðinu og liggja í „sólbaði“. Hann getur líka stokkið upp úr sjónum, líklega til að losa sig við sníkjudýr.

Hér að neðan má sjá myndband af beinhákarlinum heilsa upp á farþega en það var skipstjórinn Lárus Anton sem tók það.

Nýjast