Kristín Helgadóttir og Helgi Benediktsson skrifa
Kæru íbúar Norðurþings. Til hamingju með að vera orðnir eigendur Helguskúrs, sjóbúðar að Hafnarstétt 15 á Húsavík. Eigandi Helguskúrs, þar til í desember 2024, var faðir minn og tengdafaðir Helgi Héðinsson sjómaður en hann lést í febrúar síðastliðinn 96 ára að aldri.
Í desember 2023 varð sú ömurlega uppákoma að Norðurþing tilkynnti Helga að hann skyldi fjarlægja húsið af lóðinni Hafnarstétt 15. Í bréfinu var ranglega vísað til þess að húsið væri á stöðuleyfi, sem ætti ekki að endurnýja, auk þess sem að framkvæmdir á aðliggjandi lóð hefðu miðað við að húsið viki. Með þessu var Helga ekki aðeins tilkynnt um að hann skyldi láta rífa sína einu veraldlegu eign, bótalaust og á eigin kostnað, heldur að lífsverk hans væri einskis virði.
Þó tekist hafi, með aðstoð lögmanna, að fá viðurkennt í reynd að Helgi væri lóðarhafi, enda höfðu hann og bræður hans fengið lóðinni úthlutað á árinu 1956 og greitt lóðarleigu og fasteignargjöld allar götur síðan, var ákvörðun Norðurþings ekki dregin til baka. Þá voru honum settir þeir afarkostir að afsala sér fasteigninni ellegar standa í áralöngum málaferlum.
Í langan tíma hefur hluti fjölskyldu Helga haft fyrirætlanir um uppbyggingu í húsinu eftir að notkun þess sem sjóbúðar yrði hætt, enda löngu ljóst hversu mikið aðdráttarafl Helguskúr er fyrir innlenda sem erlenda gesti. Síðustu ár hefur mikið verið lagt í að halda húsinu við, skrá muni og sögu hússins og þá veiði og verkun sem hefur verið stunduð í og frá húsinu, og halda umhverfi þess snyrtilegu og aðgengilegu öllum. Þá hefur fjölskyldan opnað húsið ár hvert á Mærudögum þar sem fólk hefur fengið að skoða húsið, fræðast um smábátaútgerð og hákarlaveiði og þiggja veitingar. Þess utan hafa gestir og gangandi verið boðnir velkomnir af Helga, allt árið um kring. Þrátt fyrir skýrar óskir kom aldrei til greina að fjölskyldan fengi að reka húsið áfram í breyttri mynd. Þá gat sveitarstjórn ekki heldur beðið með áform sín um að taka húsið og lóðina til sín þar til háaldraður eigandi þess væri allur með tilheyrandi áhyggjum, streitu og angist allt fram á síðustu mánuði ævi hans. Ákvörðun sveitarstjórnar er einnig reiðarslag fyrir þá eldri menn sem hafa daglega lagt leið sína í skúrinn og sótt þar félagsskap og fréttir.
Helguskúr er órjúfanlegur partur af smábátasögu Húsavíkur og munu einstakar menningarminjar fara forgörðum með ákvörðun núverandi sveitarstjórnar um að rífa húsið. Þar með yrði sögu sjóbúðar á Hafnarstétt Húsavíkur lokið fyrir fullt og allt - hún verður ekki endurheimt. Sú saga sem bærinn Húsavík byggðist í raun upp af. Það verður fróðlegt að sjá hvað bæjarstjórn ætlar sér með Helguskúrsreitinn og hvort að lóðarhafi Hafnarstéttar 13 fái væna sneið af lóðinni eftir að fasteignin verður afhent bænum í desember næstkomandi.
Við þökkum einlæglega þeim þúsundum gesta sem heimsótt hafa Helguskúr um Mærudaga sem og aðra daga síðustu 18 ár.
Kæru íbúar, nú er það í ykkar höndum hvort að Helguskúr verði rifinn eða fái að standa sem einstakt lifandi sögusafn. Í því samhengi er vert að velta fyrir sér hver framtíðarsýn bæjarfélagsins er varðandi fjölbreytta starfsemi á stéttinni? Hvað segir Markþing/Húsavíkurstofa? Vilja bæjarbúar hafa öll eggin í sömu körfunni? Eru verðmæti í því að ferðamenn hafi lítið eitt annað að gera en að sjá aðra ferðamenn þegar átan fer úr flóanum? Eru bæjarbúar sáttir við að hagsmunir tiltekinna einstaklinga séu settir framar hagsmunum samfélagsins?