Byggingafyrirtækið Tréverk ehf. á Dalvík er eitt öflugasta fyrirtækið í þessum geira í Eyjafirði og hefur m.a. komið að mörgum stórum framkvæmdum á Akureyri. Tréverk verður 50 ára þann 1. október nk. og hefur fyrirtækið verið rekið á sömu kennitölu frá upphafi. Tréverk sér um framkvæmdir í Hafnarstræti 107 á Akureyri en fyrirtækið átti næst lægsta tilboð í verkið. Björn Friðþjófsson framkvæmdastjóri Tréverks segir að lægsta tilboði hafi verið hafnað, þar sem viðkomandi stóðst ekki útboðskröfur og því hafi verið samið við Tréverk. Framkvæmdir hófust 10. mars og segir Björn að ljúka eigi framkvæmdum á 1. hæð og í hluta kjallara fyrir lok júní nk. Í framhaldinu verður farið í framkvæmdir á 2. og 3. hæð næsta vetur og eru verklok á heildarverkinu áætluð um miðjan mars á næsta ári. Hann segir að um sé að ræða mjög stórt verk en heildarkostnaður við framkvæmdirnar er upp á rúmar 160 milljónir króna. Hann gerir ráð að 10-15 menn verði að jafnaði við vinnu í Hafnarstræti og þá allar gerðir af iðnaðarmönnum. Allir okkar undirverktar eru frá Akureyri, segir Björn.
Hann segir að verkefnastaðan hafi verið í lagi áður en þetta verk kom til en að það hleypi miklu lífi í rekstur fyrirtækisins. Við vorum fyrir með stækkunina á verksmiðju Promens á Dalvík en þar er um að ræða byggingarþátt upp á um 150 milljónir króna og því verki á að ljúka í sumar. Þá erum við að byggja íbúðir bæði á Akureyri og Dalvík. Þannig að verkefnastaðan var góð fyrir en er enn betri í dag. Við erum um 25 manns í vinnu og erum bjartsýnir á framhaldið.
Auk þess að vera framkvæmdastjóri er Björn einnig einn af sjö eigendum Tréverks og hann hefur stýrt fyrirtækinu frá árinu 1989. Hann segir að Tréverk sé eitt elsta fyrirtæki landsins í greininni af þessari stærðargráðu.