Akureyri lagði Gróttu að velli á Seltjarnarnesi í kvöld, 29-25, í N1-deild karla í handknattleik. Þetta var annar sigur norðanmanna í röð gegn Gróttu á útivelli. Sigurinn var torsóttur en heimamenn stóðu vel í norðanmönnum í seinni hálfleik og unnu upp sex marka forskot gestanna. Akureyringar reyndust hins vegar sterkari í lokin og tvö mikilvæg stig í hús hjá þeim. Oddur Gretarsson skoraði ellefu mörk fyrir norðanmenn í kvöld en Þorgrímur Smári Ólafsson var markahæstur í liði Gróttu með fimm mörk. Akureyri fer upp í átján stig í deildinni en Grótta hefur áfram eitt stig á botninum.