Töluverðar skemmdir á innviðum og innihaldi Bústólpa í bruna

Eldur kom upp í vöruskemmu Bústólpa á Akureyri á tíunda tímanum í gærkvöld. Vitað var að mikill eldsmatur var í húsinu, þar sem geymd eru aðföng til búfjárreksturs, og því var allt tiltækt slökkvilið kallað á staðinn. Eldurinn reyndist tiltölulega lítill og staðbundinn, en hann var innarlega í skemmunni og þvi nokkuð erfitt að komast að honum. Eftir að það tókst gekk slökkvistarf greiðlega og var allur eldur slökktur um stundarfjórðungi fyrir ellefu. Frá þessu er greint á vef Rúv.
 

Þar segir ennfremur að töluverðar skemmdir hafi orðið á innviðum og innihaldi hússins en byggingin sjálf slapp nokkuð vel, að sögn varðstjóra hjá slökkviliði Akureyrar. Aldrei var nein hætta á ferðum, hvorki fyrir menn né umhverfi að sögn varðstjóra  í samtali við Rúv. Eldsupptök eru óþekkt. 

Nýjast