Töfralausn eða tímaskekkja

Valdimar Brynjólfsson skrifar

Svo virðist vera sem æ fleiri setji vaskakvörn (sorpkvörn) á eldhúsvaskinn hjá sér. Allar matarleifar fara í kvörnina nema stór dýrabein. Heyrst hefur að sumir telji þetta góða lausn því þá þurfi þeir ekki að flokka lífrænan eldhúsúrgang í sérstök sorpílát eins og allt stefnir í og víða er orðið að veruleika. En hvað verður um kvarnasorpið? Það fer í skólplögn hússins, svo í fráveitukerfið, í hreinsivirki kerfisins og áfram í viðtaka sem oftast er sjórinn. Hér áður fyrr var haft að orðtaki: "Lengi tekur sjórinn við".

Margir hafa barist fyrir því að minnka sem mest losun manna á úrgangi í sjóinn og sagt að nú sé nóg komið og að sjórinn eigi ekki lengur að taka við rusli. Vitað er að þegar lífrænn úrgangur fer í sjóinn þá getur myndast það sem kallað er ofauðgi. Það hefst með rotnun og niðurbroti á þeim úrgangi sem fer í sjóinn. Næringarefni losna og virka sem fæða og áburður á lífríkið í sjónum. Þannig eykst þörungavöxtur talsvert og gagnsæi sjávar minnkar.

Rotnunin krefst súrefnis og þegar þörungarnir deyja verður enn meiri rotnun og enn meiri notkun súrefnis. Ef ekki er nægilegt súrefni til staðar og nýtt súrefni berst ekki að verður rotnunin loftfirrð (rotnun án súrefnis) og þá myndast eiturefni sem skaða flestar lífverur sjávarins. Vatnið súrnar og verður skaðlegt bæði fyrir fiska og hryggleysingja.

Víða erlendis hafa menn lent í því að mengun hefur eyðilagt allt líf í þröngum fjörðum og víkum og sveitarfélögin hafa orðið að leggja fram gífurlegt fé til þess að hreinsa mengunina. Þrátt fyrir opnara haf og betri aðstæður við Ísland til að þynna mengunina þá verðum við samt að halda vöku okkar.

Á árunum 1971-1980 voru framkvæmdar umfangsmiklar rannsóknir á ástandi Pollsins við Akureyri til að kanna áhrif þess að skólpi var veitt í sjóinn. Heilbrigðisnefndin á Akureyri hafði frumkvæðið að þessum rannsóknum, Akureyrarbær kostaði þær og Náttúrugripasafnið á Akureyri skipulagði þær og hafði umsjón með þeim. Hægt er að finna skýrslur um rannsóknirnar í ritröð Náttúrugripasafnsins.

Árið 1980 var haldin ráðstefna þar sem niðurstöðurnar voru dregnar saman. Í ljós kom að þrátt fyrir 18 skólpútrásir í Pollinn (1980) voru ótrúlega lítil áhrif á lífríkið merkjanleg. Það var rakið til þess að sjórinn var lagskiptur í Pollinum, skiptist í 3 lög og skólpið fór ekki niður í botnlagið sem var kyrrast. Í yfirborðslaginu var hins vegar að finna mikið magn saurgerla og talin brýn þörf á að bregðast við því, bæði vegna þeirrar hafnsæknu matvælastarfsemi sem var á Akureyri og vegna vaxandi útivistar í sjónum. Gerlarannsóknin var endurtekin 1990 og hafði þá ekkert breyst.

Í framhaldinu tók Akureyrarbær ákvörðun um að fara í úrbætur á fráveitu bæjarins og hefur verið unnið að því síðan þó ýmsum þyki það hafa tekið allt of langan tíma. Framkvæmdirnar eru kostnaðarsamar og upphaflega var lagt upp með að verkið kostaði álíka og góður frystitogari. Gerð var viðamikil áætlun og útreikningar á framtíðarmagni fráveituvatns og var miðað við að nýta hreinsimátt sjávarins svo sem kostur væri og stilla dæminu þannig upp að ekki yrði teljandi gerlamengun í fjöruborðinu.

Reiknaður voru út persónueiningar fráveitunnar en þá var skólp frá atvinnuhúsnæði umreiknað til jafngildis við skólp frá tilsvarandi fjölda manna. Lögð var áhersla á að minnka sem kostur var lífrænt efni í fráveitunni og m.a. var fiskvinnslum gert að sleppa ekki neinum föstum ögnum í fráveituna. Verkið var unnið þannig að meðfram ströndinni var lögð sneiðlögn sem öllu frárennsli var veitt í og nokkrar dælustöðvar dæla skólpinu til norðurs.

Nú fer allt frárennsli út á einum stað norðan við smábátahöfnina en eftir er að byggja hreinsistöð og dæla skólpinu 400 metra út í fjörðinn út af Krossanesi. Nú sýna gerlamælingar að sjórinn í Pollinum er orðinn hreinn og engin skólpútrás er í hann nema neyðarútrásir frá dælustöðvunum. Áætluð þynning virðist standast út frá gefnum forsendum.  Það er þýðingarmikið að breyta ekki forsendum útreikninganna svo skólpið dreifist rétt og valdi ekki skaða á lífríkinu. Forsendurnar hljóta þó að breytast ef farið verður að blanda sorpi í fráveituna.

En hvaða máli skiptir þó einn og einn setji upp vaskahvörn það er svo lítið magn sem kemur frá hverjum og einum. "Litlu munaði sagði músin þegar hún meig í sjóinn". Það hækkaði lítið í sjónum. Það sama gæti kvarnareigandinn sagt.

Við skulum hins vegar vona að hann hafi ekki hugsað málið til enda og um það fordæmi sem skapast. Við verðum að treysta því að hann hugsi ekki þannig að komast sjálfur auðveldlega frá hlutunum, láta aðra safna lífræna sorpinu til endurvinnslu eða láta samfélagið stækka fráveituna og hreinsivirki hennar. Munum að "safnast þegar saman kemur" og "margt smátt gerir eitt stórt".

Þrjú sveitarfélög við Eyjafjörð, þ.e. Grýtubakkahreppur, Svalbarðsstrandarhreppur og Eyjafjarðarsveit, hafa sett sér samþykktir um fráveitur þar sem bann er sett við að láta matarleifar úr vaskakvörnum fara í fráveituna. Ég skora á önnur sveitarfélög að setja sér fráveitusamþykktir með slíkum ákvæðum um vaskakvarnir. Það minnkar álag á fráveiturnar og viðtakann sem frárennslið fer í.

Höfundur er framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

Nýjast