Tíu milljón plöntur gróðursettar hjá Norðurlandsskógum

Tíu milljón skógarplöntur hafa verið gróðursettar á vegum Norðurlandsskóga frá stofnun verkefnisins árið 2000. Starfssvæðið er allt Norðurland frá Langanesi í Hrútafjörð.  Nú eru 155 bændur á svæðinu með skógræktarsamninga um landssvæði sem nær yfir um 8.500 hektara.  Árangur verkefnisins er mjög góður og áhugi bænda er mikill, enda skógar farnir að verða sýnilegir víða.   

Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri  Norðurlandsskóga segir skógrækt langtímaverkefni og langt að bíða arðs í formi timburs, en skógurinn byrji  þó strax að skila ýmsum öðrum verðmætum svo sem bindingu kolefnis.  Reikna má með að sá skógur sem þegar hefur verið gróðursettur bindi árlega um 15 þúsund tonn af kolefni sem samsvarar útblæstri um 15 þúsund fólksbíla.

Eftirspurn eftir innlendu timbri hefur aukist mjög undanfarna mánuði í kjölfar breytts ástands í þjóðfélaginu.  Hár flutningskostnaður og veikt gengi íslensku krónunnar gera að verkum að innflytjendur timburs sækjast nú í auknum mæli eftir íslensku timbri.  Valgerður segir stöðuna þó þannig nú að of lítið sé til að af skógi í landinu til að anna eftirspurn, „og það staðfestir málflutning skógræktarmanna um að Íslendingar verði að stórauka skógrækt ætli þeir sér að anna innanlandsþörf fyrir timbur."

Nýjast