Meðmælendalistum við framboð tíu forsetaframbjóðenda fyrir forsetakjör í sumar hefur verið skilað inn hjá yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi. Þó voru ekki allir þessir tíu búnir að safna öllum tilskildum undirskriftum á Norðurlandi. Verið er að fara yfir nöfn þeirra meðmælenda sem hefur verið skilað inn.
Þeir sem skiluðu inn listum í dag eru: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir, Magnús Ingberg Jónsson og Sturla Jónsson.
Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes og Magnús Ingi Magnússon áttu eftir að skila inn undirskriftum meðmælenda þegar yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi hélt fund klukkan tvö í dag.
Frambjóðendur hafa frest til föstudags til að skila inn öllum þeim undirskriftum sem krafa er gerð um svo framboð þeirra sé gilt. Skila þarf inn undirskriftum 60 meðmælenda í Austurlandsfjórðungi, 163 á Norðurlandi og 62 í Vesturfjórðungi en 1.215 í Suðurlandsfjórðungi. /epe