Þór gerði 1-1 jafntefli gegn FH í Boganum í Lengjubikar karla í knattspyrnu sl. laugardag. Ólafur Páll Snorrason kom FH yfir eftir sjö mínútna leik en Kristinn Þór Björnsson jafnaði fyrir Þór eftir um hálftíma leik. Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður FH, fékk rauða spjaldið á 33. mínútu fyrir að brjóta á Jóhanni Helgasyni leikmanni Þórs. FH spilaði því einum manni færri stærsta hluta leiksins en Þór tókst ekki að færa sér það í nyt og brenndi m.a. af vítaspyrnu. KA-menn steinlágu sama dag gegn ÍA í Akraneshöllinni, 1-4. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði mark KA en þeir Mark Doninger, Ólafur Valur Valdimarsson, Andri Adolphsson og Jón Vilhelm Ákason skoruðu mörk ÍA. KA hefur þrjú stig í sjötta sæti í riðli tvö í A-deild en í riðli þrjú eru Þór og Valur jöfn á toppnum með tíu stig.