Tími til kominn!

Við umræður í bæjarstjórn við gerð tveggja síðustu framkvæmdaáætlana hef ég hamrað á því  að framkvæmdum við fráveituna yrði flýtt og hönnun skoðuð upp á nýtt með það fyrir augum að leggja útrásarlögnina fyrst og láta hreinsivirki bíða. Það er mjög brýnt að koma á úrbótum strax í fráveitunni vegna hættu á mengun við höfnina og suður í Pollinn. Ég fór yfir aðkomu mína í bæjarstjórn í þessu máli í grein í Vikudegi um nýliðin áramót.

Það gladdi mig því að sjá að loksins hafði þessi lausn náð eyrum meirihlutans því framkvæmdaráð Akureyrarbæjar ákvað á fundi sínum s.l. föstudag að fara strax á þessu ári í endurbætur á fráveitumálum í smábátahöfninni Sandgerðisbót samkvæmt þessari tillögu minni. Þó svo að framkvæmdir við fráveituna í sumar rúmist innan þeirrar fjárhæðar, sem ætluð var til fráveitunnar í ár er ný samþykkt framkvæmdaáætlun í uppnámi og ljóst að ekki er þörf fyrir það fjármagn til fráveitunnar næstu árin sem áætlunin gerði ráð fyrir.

Það hefur því farið forgörðum tími í bæjarstjórn þar sem hefði mátt ræða aðrar nauðsynlegar framkvæmdir. Þar hef ég t.d. bent á skoða að mínu mati nauðsynlegar endurbætur á grunnskólum og leikskólum. Ég minni á að það var boðað að bæta þyrfti alla áætlanagerð og m.a. horfa til lengri tíma, en til þess þarf auðvitað pólitíska verkstjórn.

Höfundur er bæjarfulltrúi D-lista.

 

Nýjast