„Við höfum aflað tilboða í borun þriggja rannsóknarhola og til stendur að þær verði boraðar innan skamms eða í apríl," segir Franz. Norðurorka sótti í ágúst á síðasta ári um heimild til að kanna nánar hauggas á sorphaugunum á Glerárdal og í framhaldi af því var samþykkt að ganga til samninga við fyrirtækið. Franz segir að til séu áætlanir um magn gass á haugsvæðinu og samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að unnt sé að vinna þar verulegt magn af hauggasi. „Nú þurfum við að staðfesta þessa útreikninga með borun rannsóknarhola," segir hann en úrvinnslu allra gagna á að ljúka fyrir lok þessa árs.
Það þarf að hreinsa hauggasið þannig að eftir verði metangas sem ef til vill gæti nýst hugsanlegri koltrefjaverksmiðju á Akureyri, en Franz segir að einnig megi nota gasið sem eldsneyti á bíla, „en sú nýting ein og sér er langt frá því arðbær eins og sakir standa."
Hauggas og þá einkum metangas er afar óæskilegt efni, það megnar lofthjúp jarðar og er yfir 20 sinnum skaðlegra en koltvísýringur. Gasið sígur upp á yfirborðið og fer á endanum allt út í andrúmsloftið sé ekkert að gert. „Sumstaðar safna menn gasinu frá sorphaugum og brenna því án þess að nýta það frekar og er sú aðgerð þá ætluð til að draga úr mengun lofthjúpsins," segir Franz
Gert er ráð fyrir að kostnaður við rannsóknir geti numið allt að 8 milljónum króna. Stofnkostnaður við virkjun borhola og hreinsibúnað er hinsvegar áætlaður um 250 milljónir króna og segir Franz ólíklegt að vinnsla hefjist fyrr en stór viðskiptavinur finnst, eða fjöldi ökutækja sem nýtt geta metangas sem eldsneyti, í það minnsta hundraðfaldast hér á svæðinu. „Við teljum hins vegar að fyrirtækið, sem orkuframleiðandi hafi hagsmuni af og beri einnig skylda til að kanna þessa orkulind," segir Franz.