Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hefur auglýst tillögu að deiliskipulagi frístundahverfis í landi Sólbergs, vestan Vaðlaheiðarvegar. Í tillögunni er gert ráð fyrir 14 frístundalóðum að stærðinni frá 5.000 m² til 5.800 m². Gert er ráð fyrir að lóðirnar verði eignarlóðir og að aðkoma að svæðinu verði frá Vaðlaheiðarvegi. Húsin skulu vera að lágmarki 30 m² og að hámarki 140 m² að grunnfleti.
Húsin skulu vera í jarðarlitum og fara vel í umhverfi. Gert er að skilyrði að haft verði í huga byggðarmynstur þeirrar sumarbústaðabyggðar sem er nærliggjandi við staðsetningu og hönnun húsanna. Til viðbótar við 140 m² sumarhús er heimilt að reisa geymslu, svefnhús eða gróðurhús, þó ekki stærri en 30 m², segir m.a. í bygginga- og skipulagsskilmálun.
Deiliskipulagstillagan er til sýnis á skrifstofu Svalbarðsstrandarhrepps í Ráðhúsinu á Svalbarðseyri og á http://www.svalbardsstrond.is til 8. febrúar 2012. Athugasemdum við tillöguna skal skilað á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir kl. 16 sama dag.