Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar samþykkti á fundi sínm í gær, tillögu að breytingu á aðalskipulagi á leið Blöndulínu 3 ofan Akureyrar frá sveitarfélagsmörkum Hörgársveitar að fyrirhuguðu tengivirki við Kífsá og jarðstrengjaleið þaðan að Rangárvöllum. Áður hafði skipulagsnefnd fjallað um málið og lagt til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt. Ein athugasemd barst á auglýsingartíma. Rósa María Stefánsdóttir handhafi að erfðafestulandi Kífsár og er eigandi eignarlands að Hesjuvöllum mótmælti fyrirhugaðri staðsetningu á jarðstreng við landamerki að báðum þessum landskikum.
Samkvæmt framlögðum uppdrætti sem sýnir landamerki, mörk erfðafestu og legu slóða og jarðstrengs kemur fram að lega jarðstrengsins og slóði er utan eignarlands Hesjuvalla en innan erfðafestulands í landi Kífsár sem er í eigu Akureyrarbæjar. Í 8. gr. erfðafestusamnings er bæjarstjórn heimilt að leggja skólpræsi, vatnsæðar, rafveitutaugar og annað því um líkt um erfðafestulandið endurgjaldslaust, enda sé landi eigi spillt með þessu. Í þessu tilviki er um að ræða vegslóða að spennivirki og rafstreng grafinn í jörðu í eða við hann til að raska sem minnstu svæði. Staðsetning slóðans var valin m.a. með tilliti til legu í landi og vegna fornleifa sem eru kringum bæjarstæði Kífsár sem er rétt norðan erfðafestulandsins, segir í bókun skipulagsnefndar. Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemd við umhverfisskýrsluna og umhverfisstofnun gerir ekki athugasemd við umrædda tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar.
Skipulagsstofnun óskaði eftir greinargerð sveitarstjórnar sbr. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana og lagði skipulagsstjóri fram greinargerð um hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina og hvernig höfð hefur verið hliðsjón af umhverfisskýrslu, umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma.
Helgi Snæbjarnarson L-lista lagði fram tillögu að svohljóðandi bókun á fundi bæjarstjórnar í gær, sem var samþykkt: Akureyrarkaupstaður áskilur sér rétt til að hafa áhrif á gerð línumastra á línuleiðinni við veitingu framkvæmdaleyfis þegar að því kemur.
Ólafur Jónsson D-lista sagði við umræður í bæjarstjórn að nauðsynlegt væri að tryggja öryggi og starfsemi flugvallarins þegar kæmi að því að leggja línuna áfram til suðurs og svo austur yfir fjörðinn. Hann lagði fram tillögu að bókun svohljóðandi, sem var felld: Akureyrarkaupstaður áskilur sér rétt til að hafa áhrif á gerð línumastra á línuleiðinni við veitingu framkvæmdaleyfis þegar að því kemur. Jafnframt leggur bæjarstjórn Akureyrar áherslu á að þegar kemur til að tengja línuna áfram austur að þá verði leitað lausna sem tryggi áfram fullt öryggi í aðflugi að Akureyrarflugvelli og að öðru leiti verði boðið upp á lausnir sem tryggja umhverfissjónarmið en um leið rekstraröryggi og raforku á samkeppnishæfu verði.
Við umræðuna kom fram að ekki væri nauðsynlegt á þessum tímapunkti að hafa áhyggjur af lagningu línunnar áfram suður en þegar kæmi að því yrði málið skoðað, m.a. með tilliti til starfsemi flugvallarins.