Um þúsundir gesta eru þegar komnir til Dalvíkur þar sem Fiskidagurinn mikli verður haldinn hátíðlegur á morgun. Að sögn mótshaldara hafa aldrei fleiri gestir verið komnir til Dalvíkur á fimmtudagskvöldi líkt og var í gær. Öll tjaldsvæði eru orðinn full og hefur fólk tekið upp á því að tjalda tjöldum sínum og tjaldvögnum fyrir utan bæjarmörkin.
„Það er búið að vera gríðarlegur fjöldi gesta sem hefur verið að streyma til okkar,” segir Júlíus Júlíusson framkvæmdarstjóri Fiskidagsins mikla. „Það er erfitt að áætla fjölda gesta eins og er en það er gríðarlegur fjöldi og klárlega um þúsundir manna komnir á svæðið. Við getum kannski ekki tekið á móti endalausu fólki en það er rými fyrir töluverðann fjölda í viðbót," segir Júlíus. Búast má við að enn bæti í fjölda gesta á Dalvík bæði í dag og á morgun.