Þungar áhyggjur í Grýtubakkahreppi af kvótafrumvörpum

„Mér finnt þetta bara alveg bölvanlegt,“ segir Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, en sveitarstjórn hefur lýst yfir þungum áhyggjum af áhrifum fyrirliggjandi kvótafrumvarpa á framtíð útgerðar og fiskvinnslu í sveitarfélaginu sem og á framtíð sveitarfélagsins. Grýtubakkahreppur fékk KPMG til að vinna skýrslu um áhrif frumvarpa ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld og er niðurstaðan sú að líkleg aukning í gjöldtöku af útgerðarfyrirtækjum í sveitarfélaginu verði á bilinu 6-700 milljónir króna, en tekjur vegna svonefndra leigupotta sem það gæti fengið í sinn hlut gætu numið um einni til sjö milljónum króna.  Þessi aukna gjaldtaka samsvarar 1,7 til 2 milljónum króna á  hverm og einn íbúa Grýtubakkahrepps, en þeir eru 351 talsins.

Guðný nefndi að tvær rótgrónar útgerðir væru starfandi í sveitarfélaginu, Frosti sem ætti 100 ára afmæli á árinu og Gjögur sem starfað hefði í 65 ár. „Hvorug þessara útgerða hafa verið að dæla peningum út úr fyrirtækinu, þær hafa báðar lagt mikla áherslu á að ná til baka aflaheimildum, eftir mikla skerðingu sem varð árið 2007 og reynt eftir megni að bæta sér þá skerðingu upp,“ segir Guðný.

Hún segir íbúa sveitarfélagsins vera slegna yfir niðurstöðu skýrslunnar og finnist þeir hafa fengið blauta tusku í andlitið með þeim frumvörpum sem fyrir liggja.  „Auðvitað vonar maður í lengstu lög að gerðar verði breytingar á þessum frumvörpum og að þau fari ekki óbreytt í gegn.  Það er óskandi að þetta verði ekki veruleiki sem við stöndum frammi fyrir,“ segir hún. Fyrirhugað er að ræða við þingmenn kjördæmisins um málið og kveðst sveitarstjóri ekki trúa því að þeir séu fylgjandi svo mikilli gjaldtöku á íbúa sjávarútvegsbyggða.

Íbúafundur var haldinn í Grýtubakkahreppi í gærkvöld og var hann vel sóttur.  Kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar komu þar til umræðu auk fleiri mála og segir Guðný að fundarmenn hafi lýst yfir miklum áhyggjum með frumvörpin, sérstaklega frumvarpið um veiðigjaldið ef það yrði að lögum.

Nýjast