Þorvaldur Ingvarsson forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri segir í pistli til samstarfsmanna sinna, að hann hafi ákveðið að þiggja ekki tímabundna stöðu forstjóra þar sem líklegt sé að breytingar verði á búsetu sinnar fjölskyldu í sumar. Eins og þið vitið þá var um miðjan desember sl. auglýst laust til umsóknar starf forstjóra, tímabundið til eins árs, vegna leyfis Halldórs Jónssonar. Að beiðni velferðarráðuneytisins þá hef ég gegnt starfinu frá 1. maí síðastliðnum en skipun mín rann út um áramótin. Þessi tími hefur verið ánægjulegur og gefandi, mér finnst að við höfum öll komið miklu í verk og þið hafið staðið ykkur frábærlega á þessum niðurskurðartímum. Ennþá getum við veitt sjúklingum góða þjónustu, það er ykkur að þakka, segir Þorvaldur.
Hann segist jafnframt hafa ákveðið að þiggja ekki tímabundna stöðu forstjóra þar sem líklegt sé að breytingar verði á búsetu sinnar fjölskyldu í sumar. Með því að starfa ekki sem forstjóri geti ég unnið meira sem bæklunarlæknir við sjúkrahúsið að minnsta kosti enn um sinn. Þetta er mér ekki auðveld ákvörðun þar sem við erum að ganga í gegnum miklar breytingar sem ég hef leitt. Þegar ég tók að mér starfið var gert ráð fyrir að ég gegndi því til síðustu áramóta og átti ég von á að í haust yrði gengið frá ráðningu forstjóra til lengri tíma. Af því hefur ekki orðið enn. Ég mun þó gegna starfinu þar til ráðuneytið hefur gengið frá tímabundinni ráðningu forstjóra sem ég ætla að verði 1 mars.
Þorvaldur segir að ný framkvæmdastjórn hafi tekið til starfa þann 1. febrúar og að mikilvægt sé að standa heilshugar að baki nýjum stjórnendum. Jafnframt sé mikilvægt að allir standi saman að því að innleiða nýja stefnu og framtíðarsýn sjúkrahússins með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.