Þorsteinn leggur skóna á hilluna

Þorsteinn Ingason hefur sennilega leikið sinn síðasta leik fyrir Þór.
Þorsteinn Ingason hefur sennilega leikið sinn síðasta leik fyrir Þór.

Þorsteinn Ingason fyrirliði meistaraflokks Þórs í knattspyrnu hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna aðeins 23 ára og mun því ekki leika með liðinu í 1. deildinni næsta sumar. Þorsteinn segir margar ástæður valda því að hann taki þessa ákvörðun. „Eins og staðan er að þá er þetta of mikið að vera að spila fótbolta á þessum skala. Það fer of mikill tími í þetta og ég þarf bæði að sinna náminu mikið og svo tekur fjölskyldan sinn toll,“ segir Þorsteinn, sem er búsettur fyrir sunnan og hefur því þurft að flakka mikið á milli í sumar.

„Ég varð að fórna einhverju og það var fótboltinn sem varð að fara. Þetta er svo sem ekkert sem á að koma á óvart. Áður en ég gerði samning við Þór fyrir einu og hálfu ári síðan að þá bað ég um að fá uppsagnaklausu í samninginn því ég vildi prófa að spila áfram með Þór og búa í Reykjavík. Það var hins vegar bara of mikið og ekki þess virði, þó að það sé erfitt að yfirgefa félagið núna eftir fall í fyrstu deildina en einhverntímann verður maður að taka þessa ákvörðun. Það stóð heldur aldrei til hjá mér að vera fótboltamaður í framtíðinni.“

Þorsteinn er uppalinn Þórsari og spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2006. Hann segir það ekki hafa komið til greina að spila með liði á höfuðborgarsvæðinu. „Ég hef engan áhuga á því að spila fótbolta með öðru liði. Ég hafði gaman af því að spila með Þór en ætla mér ekkert að búa til feril annarsstaðars,“ hann. Þorsteinn er fjórði leikmaðurinn sem Þór missir frá síðastliðnu sumri en þeir Atli Sigurjónsson, Gísli Páll Helgason og lánsmaðurinn Gunnar Már Guðmundsson eru einnig farnir.

Nýjast