Í tilefni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi í sumar hefur knattspyrnudeild Þórs látið útbúa sérstaka HM-treyju. Treyjan er númer 17 sem er númer fyrirliða íslenska landsliðsins, Arons Einars Gunnarssonar, en hann er uppalinn Þórsari og lék með liðinu áður en hann hélt út í atvinnumennsku.
Frá þessu er greint á vefnum Kaffið.is.
Fram kemur á vef Kaffisins að treyjan sé í sölu á vefnum 603.is og kemur í öllum stærðum. Óðinn Svan Óðinsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs er gríðarlega ánægður með útkomuna.
„Við Þórsarar erum auðvitað stoltir af okkar manni og vildum gera eitthvað sérstakt. Það er ekki á hverjum degi sem Þórsari leiðir lið á HM,“ segir Óðinn í samtali við Kaffið.is