Knattspyrnudeild Þórs hefur samþykkt tilboð Breiðabliks í varnarmanninn Gísla Pál Helgason samkvæmt öruggum heimildum Morgunblaðsins. Því eru allar líkur á að Gísli Páll gangi í raðir Kópavogsliðsins og leiki með liðinu í Pepsi-deildinni næsta sumar. Gísli Páll er tvítugur og hefur verið lykilmaður hjá Þór síðustu árin en hann lék 21 af 22 leikjum Akureyrarliðsins í úrvalsdeildinni síðasta sumar, alla í byrjunarliði. Hann hefur leikið 13 leiki með yngri landsliðum Íslands og svo sinn fyrsta leik með 21-árs landsliðinu í haust.