Ljóst er hvaða lið mætast í átta liða úrslitum Lengjubikars karla í knattspyrnu en leikirnir fara fram á miðvikudag og fimmtudag í þessari viku. Þór mætir Fram á fimmtudaginn á Framvelli kl. 14:00 en stórleikur átta liða úrslitanna verður leikur Íslands-og bikarmeistara KR og FH sem mætast á KR-velli á sama tíma. Einnig mætast Keflavík og Breiðablik og Víkingur R. og Valur, en þessi lið eigast við að kvöldi miðvikudags.
KA endaði í fimmta sæti riðils tvö í A-deild með tíu stig en liðið sigraði ÍBV, 2-1, á Leiknisvelli í lokaleiknum í riðlinum sl. helgi. Jóhann Helgason skoraði bæði mörk KA en Aaron Spear mark ÍBV. Þá hafði Dalvík/Reynir betur gegn Magna, 3-2, í nágrannaslag í Boganum í riðli þrjú í B-deildinni. Dalvík/Reynir hefur sjö stig í þriðja sæti en Magni þrjú stig í fimmta sæti.