Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar má álykta að fjórðungur kvenna sem eru í skráðri sambúð og giftar verði fyrir ofbeldi af hendi sambýlismanns síns á Akureyri og eru þær um 1000, segir í fréttatilkynningu frá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. 18,2 % af þeim konum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu orðið fyrir andlegu ofbeldi af hálfu maka síns, 3,3 % líkamlegu og 1,3 % höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Yfir 11% þátttakenda hræðist maka sinn, bæði hvað viðkomandi sagði og gerði.
Rannsóknin var birt í júlíútgáfu hjúkrunarfræði-tímaritsins Journal of Advanced Nursing. Rannsóknin var gerð af Brynju Örlygsdóttur, doktor í hjúkrunarfærði og Erlu Kolbrúnu Svavarsdóttur sem er prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. "Okkur hjá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, er kunnugt um þennan mikla fjölda kvenna sem búa við þessar hörmulegu aðstæður og staðfestir þessi rannsókn reynslu okkar. Von okkar er sú að niðurstaða rannsóknarinnar veki almenning til umhugsunar. Nauðsynlegt er að tryggja á erfiðum tímum að niðurskurður lendi ekki á þeim félögum og samtökum sem starfa á þessum vettvangi, heldur þarf að efla stuðninginn og leggja aukna áherslu á forvarnir og fræðslu. Látum ekki þolendur eina bera ábyrgðina," segir ennfremur í fréttatilkynningunni.