Stefán segir að staðan nú sé þolanleg, en fyrirsjáanlegt að erfitt tímabil sé framundan með haustinu þegar útivinna minnkar. Sem stendur séu mörg verkefni í gangi á Akureyri, m.a. við tvær skólabyggingar, menningarhúsið og hjá Becromal í Krossanesi, en þeim muni hins vegar öllum ljúka þegar líður á árið og er lítið framundan. Ef frá er talin viðbygging við Háskólann á Akureyri þar sem innivinnu verður sinnt næsta vetur er lítið um stærri verkefni í byggingariðnaði. „Það er ekki fyrirsjáanlegt að til dæmis Akureyrarbær ráðist í stærri byggingaframkvæmdir á næstunni og fasteignamarkaðurinn er enn hálf frosin, en við bendum á að upplagt sé að sinna viðhaldi og minni verkefnum nú á þessum tíma. Reyndar hefur sá markaður tekið við sér eftir að endurgreiðslur á virðisaukaskatti voru hækkaðar, vegna t.d. endurbóta á íbúðarhúsnæði. Við finnum fyrir því að meira er að gera á þeim vettvangi en oft áður. Þetta hefur því lyft verulega undir verkefni af því tagi. Þá er töluvert um að beðið er um tilboð í málningu á fjölbýlis- og einbýlishúsum um þessar mundir," segir Stefán sem er málarameistari. Hann nefnir að fólk finnist þetta ef til vill rétti tíminn til að sinna viðhaldi eigna sinna enda geri menn sér vonir um hagstæð tilboð og þá virðist margir sem eitthvað fé eiga fremur vilja nýta það í viðhald eigna sinna en geyma það í banka.