„Þetta var mjög óhugnalegt að sjá og maður óttaðist það versta. Mér fannst flugvélin fara mjög hratt niður,“ segir Hans Rúnar Snorrason kennari í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit sem varð vitni að því þegar flugvél nauðlenti á Eyjafjarðarbraut vestri skammt frá Hrafnagili fyrir skömmu. Um klukkan hálf eitt í dag var tilkynnt um að lítil flugvél hefði misst afl á flugi rétt sunnan við Akureyri. Flugkennari og flugnemi voru um borð og sluppu þeir ómeiddir.
„Flugvélin lét illa yfir skólanum og maður heyrði að það var skrýtið hljóð í vélinni og hökkt. Þetta leit skelfilega út,“ segir Hans Rúnar. Bæði konan hans og dóttir eru að læra flug en Hans Rúnar vissi ekki hvort þær væru í vélinni. „Ég hef líklega aldrei orðið jafn hræddur og rauk út af stað," segir Hans og bætir við að flugkennarinn hafi greinilega gert vel með því að ná að lenda vélinni.
Ekki er talið að flugvélin sé mikið skemmd. Lögreglan á Norðurlandi eystra er á vettvangi og einnig er von á aðilum frá rannsóknarnefnd samgönguslysa.