„Þetta er allt annað líf“

Ásdís Sigurðardóttir er að nálgast sitt besta form með liði KA/Þórs.
Ásdís Sigurðardóttir er að nálgast sitt besta form með liði KA/Þórs.

Ásdís Sigurðardóttir, leikmaður KA/Þórs, hefur farið á kostum í undanförnum leikjum með liðinu í N1-deild kvenna í handknattleik. Hún hefur spilað vel í sókn sem vörn og ásamt Mörthu Hermannsdóttur fyrirliða verið þungamiðjan í leik liðsins í vetur. Þegar stutt hlé er gert á deildinni vegna bikarúrslita um helgina er Ásdís í sjöunda sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar. Hún hefur skorað 65 mörk í tíu leikjum og er markahæst í liði KA/Þórs það sem af er tímabils, en Martha Hermannsdóttir kemur á hæla hennar með 63 mörk í ellefu leikjum.

„Ég er þokkalega sátt við mína frammistöðu í vetur en ég tel mig samt eiga meira inni,“ segir Ásdís í spjalli við Vikudag. Hún hefur lengi glímt við þrálát axlarmeiðsli á vinstri hönd sem hafa hrjáð hana inn á vellinum. Hún er hins vegar óðum að ná sínum fyrri styrk eftir aðgerð sl. vor og sér loks fram á varanlegan bata. „Ég fór í aðgerðina í lok maí og nýtti vel tveggja mánaða pásuna í deildinni vegna HM í desember. Sú hvíld gerði mér mjög gott og eftir það fór þetta að ganga vel hjá mér inn á vellinum. Þetta er allt að koma og ég toppa vonandi í úrslitakeppninni í vor en þar ætlum við að vera,“ sagði hún.

Ásdís, sem er 29 ára, hefur komið víða við á handboltaferlinum og ásamt KA/Þór hefur hún leikið með FH og Stjörnunni hér heima. Hún varð Íslandsmeistari með Stjörnunni 2007 og 2008, bikarmeistari 2005 og 2008 og deildarbikarmeistari 2007. Hún lék einnig um skamms tíma sem atvinnumaður í þýsku úrvalsdeildinni og hefur einnig leikið A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún hefur leikið með KA/Þór síðan haustið 2009 en norðanliðið sendi hins vegar ekki lið til keppni síðasta vetur.

Nánar er rætt við Ásdísi í nýjasta tölublaði Vikudags.

Nýjast