Þeir sem ekki þurfa að leggja í stæði fatlaðra eiga að njóta þess á meðan þeir geta

Gjaldskrá leikskóla á Akureyri hækkar um 12% á milli ára.
Gjaldskrá leikskóla á Akureyri hækkar um 12% á milli ára.

Gjaldskrá í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta ár var samþykkt af meirihluta bæjarstjórnar á fundi í vikunni. Fram kom í máli Odds Helga Halldórssonar formanns bæjarráðs, að ekki hafi verið um neinar miðlægar ákvarðanir að ræða frá bæjarstjórn eða bæjarráði niður til nefnda, um það hvernig þær skyldu haga gjaldskrárhækkunum. Nefndirnar hafi átt að leggja til breytingar á gjaldskrá í þeim málumflokkum sem undir þær heyra. Hann sagði að hækkanirnar væru mismunandi.

Fram kom í máli Odds að engin hækkun yrði hjá Amtsbókasafninu en töluverð hækkun í gjaldskrá leikskóla, eða um 12% og í skólavistun um rúm 12%. Stök máltíð í mötuneyti grunnskóla hækkar um tæp 14% og annar áskrift um svipaða prósentutölu. Oddur sagði að eftir þessa hækkun í leikskólum væri hlutur foreldra af kostnaði við barn í leikskóla kominn í 22,7% og hækkaði um rúmlega 1% milli ára. Hækkunin fyrir foreldra er um 20 milljónir króna, eða um helmingur af kostnaðarauka sem verður á milli ára. Einnig kom fram hjá Oddi að heimsendur matur hækkar um 110 kr. eða 12,3%, úr 890 kr. í 1.000 kr. Akstur í heimaþjónustu hækkar úr 99 kr. í 111 kr. og í félags- og tómstundastarfi eldri borgara  hækkar hádegismatur úr 840 kr. í 970 kr.

Tímaleigur í íþróttahúsum hækka um 5-7% en engin hækkun er í Boganum. Stakt gjald fullorðinna í sund hækkar úr 450 kr. í 470 kr., eða um 4% en árskort barna kostar áfram 1.000 kr. Önnur sundkort hækka frá tæpum 6% upp í rúm 8%. Gjaldskráin í Hlíðarfjalli hækkar um 5-9%.

Gjald fyrir fasleigubílastæði og stöðubrot Bílastæðasjóðs hækka nokkuð en mest er hækkunin fyrir að leggja í stæði fatlaðra, eða um 80% - úr 5.000 kr. í 9.000 kr. “Þeir sem ekki þurfa að leggja í stæði fatlaðra eiga að njóta þess á meðan þeir geta,” sagði Oddur. Sorphreinsunargjald hækkar um 1.100 kr. á íbúð, eða úr 22.000 kr. í 23.100 kr. Oddur sagði að bæjarbúar væru þar með að greiða um 88% af kostnaði við soprhreinsun.

Fulltrúar minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn gerðu athugasemdir við það misræmi sem væri í þessum gjaldskrárhækkunum. Hækkunin væri einna mest hjá leikskólum og í skólavistun, sem kæmi illa við barnafólk.

Nýjast