Miðjumaðurinn Atli Sigurjónsson og varnarmaðurinn Gísli Páll Helgason, tveir af lykilmönnum knattspyrnuliðs Þórs undanfarin ár, hafa báðir sagt skilið við uppeldisfélag sitt og gengið í raðir úrvalsdeildarliðs. Atli gerði þriggja ára samning við Íslands-og bikarmeistara KR en Gísli Páll samdi við Breiðablik til þriggja ára. Þeir félagar leika því áfram í Pepsi-deildinni næsta sumar. Þetta leggst bara mjög vel í mig og þótt það sé erfitt að fara frá Þór er þetta mjög spennandi verkefni, segir Atli í samtali við Vikudag um félagaskiptin. Hann segist ekki óttast samkeppnina hjá besta félagsliði landsins um þessar mundir. Þetta er auðvitað frábært félag og ég á eftir að læra heilmikið við að æfa og spila með þeim. Ég tel mig alveg eiga góða möguleika í að vera í liðinu. Ég þurfti að hugsa þetta alveg fram og til baka en komst að lokum að þeirri niðurstöðu að þetta væri skref sem ég þyrfti að taka á ferlinum, segir hann. Atli, sem er tvítugur, hefur leikið með meistaraflokki Þórs frá 2008 en síðasta sumar lék hann 22 leiki í deild og bikar. Atli var nálægt því að fara í atvinnumennskuna í haust en hann var til skoðunar hjá hollenska úrvalsdeildarliðið N.E.C. Nijmegen og æfði með félaginu um tíma í sumar. Atli segist þó stefna í atvinnumennsku síðar á ferlinum og segir það hafa spilað stóran þátt í ákvörðuninni. Ef ég hefði stefnt á að spila bara á Íslandi allan minn feril að þá hefði ég bara spila með Þór. En ég vil ná lengra og þess vegna þurfti ég að taka þetta skref að mínu mati, segir Atli og játar að ákvörðunin hafi verið afar erfið. Þetta var örugglega erfiðari ákvörðun en margir halda og það var ekkert sjálfgefið að ég myndi stíga þetta skref.
Þarf að fá meiri áskorun
Mér líst ljómandi vel á þetta og er spenntur fyrir þessari nýju áskorun, segir Gísli Páll við Vikudag um flutninginn til Breiðabliks. Gísli Páll er einnig tvítugur að aldri og hefur verið fastamaður í byrjunarliði Þórs undanfarin ár. Hann hefur spilað 95 leiki með Þór á fimm árum og skorað í þeim þrjú mörk. Gísli mun væntanlega fá harðari samkeppni um byrjunarliðssæti í Kópavoginum. Ég er búinn að vera í byrjunarliðinu hjá Þór í einhver fjögur tímabil og mér fannst það vera rétt skref á ferlinum að fara í stærri klúbb á þessum tímapunkti og fá meiri áskorun. Þetta er mikilvægt stökk upp á ferilinn að gera og ég tel að ég muni bæta mig mikið sem leikmaður. Það er topp æfingaaðstaða þarna hjá Blikum og ein sú besta landinu held ég. Þetta er mjög gott lið og þeir hafa einnig verið duglegir við að senda menn erlendis. Það er vonandi að það opnast einhverjir gluggar erlendis fyrir manni því maður stefnir klárlega ennþá lengra, segir Gísli. Líkt og Atli segir Gísli Páll að það hafi verið erfið ákvörðun að fara frá Þór. Maður þurfti að hugsa þetta lengi en ég er það spenntur fyrir þessu að maður lætur það ekkert á sig fá þótt það sé erfitt að kveðja uppeldisfélagið. Strákarnir skilja mig vonandi, sagði Gísli Páll að lokum.