Það er rangt að Vaðlaheiðargöng standi öðrum framkvæmdum fyrir þrifum

Höskuldur Þórhallsson viðurkennir að hafa gerst sekur um að aka undir áhrifum áfengis.
Höskuldur Þórhallsson viðurkennir að hafa gerst sekur um að aka undir áhrifum áfengis.

Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, er bjartsýnn á að Vaðlaheiðargöng komist á dagskrá Alþingis áður en þingi lýkur í sumar, og að frumvarp fjármálaráðherra um fjármögnum framkvæmda við gerð Vaðlaheiðarganga, verði samþykkt. Hann segir að auðlindagjaldsmálið og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu séu á dagskrá þessa dagana og að töluverð umræða verði um þau. “Ég er þó á því að áfram verði allt fast í þeim málum og þau verði rædd eitthvað fram á sumarið.”

Höskuldur segir að það sem vanti upp á sé að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna, þau Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra, séu ekki tilbúin til þess að semja um þessi mál. Það hafi alla vega ekki verið stíll Jóhönnu í gegnum tíðina að sýna samstarfsvilja, að sögn Höskuldar. “Í mínum huga væri hægt að ná sanngjarni niðurstöðu um t.d. auðlindagjaldið ef aðilar fengust til þess að setjast niður og ræða málin. En andrúmsloftið í þinginu er mjög þungt og það sagði mér maður sem hefur starfað þar lengi að hann hefði ekki upplifað annað eins í 20 ár,” sagði Höskuldur.

Hann segir að það fyrirkomulag sem nú gildi í þinginu varðandi umræður um einstök mál, geri störf Alþings þyngri en áður. “Það tíðkast í öllum löndum að stjórnarandstaðan berjist gegn þeim málum sem hún er andsnúin en breytingar sem gerðar voru á þingsköpum haustið 2007 geri það að verkum að svipur þingsins er ekki eins góður og annars gæti verið. Tilgangurinn með breytingunum var að gera umræðuna snarpari og skemmtilegri en hún varð í raun ómálefnalegri og „stóryrtari“. Rökræðan vék fyrir kappræðunni.”

Varðandi Vaðlaheiðargöng segist Höskuldur bjartsýnn á að þau komist á dagskrá þegar búið verður að semja um sjávarútvegsmálin og þinglok. “Ég held að það verði hluti af þeim pakka sem kemur til afgreiðslu og ég trúi því að það sé meirihluti fyrir því að ráðast í verkið,” segir Höskuldur.

Eigum að liðka fyrir málum

Hann segir að það sitt mat að meirihluti sé fyrir málinu innan þingflokks Framsóknarflokksins og þá segir hann að allir þingmenn kjördæmisins standi að baki framkvæmdinni. “Mér finnst ríkisstjórnin hafa haldið rangt á málum frá upphafi en það hefur verið góð og mikil samstaða hjá öllum þingmönnum kjördæmisins þó ýmis mistök hafi verið gerð. Það er ekki verið að reyna að fela neitt. Ríkisendurskoðandi hefur farið yfir málið og hann gerir ekki athugasemdir við það og segir að þetta eigi að færa sem skuld ríkissjóðs en ennfremur sem eign, því ríkið mun eignast göngin að lokum.”

Höskuldur segir að í samþykktum Framsóknarflokksins komi fram að flokkurinn eigi berjast fyrir bættum samgöngum, hvar sem er á landinu, auk þess sem verið sé að kalla eftir framkvæmdum. “Stjórnarandstöðuflokkur sem hefur barist fyrir samgöngubótum og atvinnuuppbyggingu og þá sérstaklega úti á landi, getur ekki verið á móti þegar eitthvað kemur frá ríkisstjórninni. Við eigum að liðka fyrir góðum málum, við höfum gert það hingað til og þetta er einmitt gott mál sem stjórnarandstöðuþingmenn eiga að hjálpa til við að koma í gegn.”

Stilla framkvæmdum á móti hvor annarri

Höskuldur segir að því miður hafi verið rætt um Vaðlaheiðargöng sem einkaframkvæmd og að andstæðingar verkefnisins hafi notað þetta orð og fullyrt að hér sé ekki um neina einkaframkvæmd að ræða. “Aðilar hér í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu hafa aldrei talað um einkaframkvæmd því aðkoma ríkisins hefur alltaf legið fyrir með einum eða öðrum hætti. Þetta er ekki einkaframkvæmd og heldur ekki ríkisframkvæmd í skilningi þess orðs og þess vegna á þessi framkvæmd ekki heima inn á samgönguáætlun. Þetta er sérstakt verkefni sem verður fjármagnað af notendum ganganna og það gerir það að verkum að við getum farið fyrr í þessa framkvæmd en ella. Ég hef verið talsmaður þess að ráðist verði í Norðfjarðargöng og samgöngubætur almennt en þær framkvæmdir eru því marki brenndar að þær geta ekki staðið undir sér með veggjöldum. Þess vegna eiga Norðfjarðargöng að vera fremst á samgönguáætlun og Dýrafjarðargöng þar á eftir. Það sem mér svíður mest er að andstæðingar Vaðlaheiðarganga hafa verið að stilla þessum framkvæmdum á móti hvor annarri. Það er rangt að Vaðlaheiðargöng standi öðrum framkvæmdum fyrir þrifum.”

Virðing Alþingis

Þegar horft sé á heildarmyndina, sé þetta lang ódýrasta leiðin fyrir ríkissjóð, sem fái þarna ókeypis göng, eftir 25-30 ár. “Ef allar dómsdagsspár rætast er verið að tala um ríkið fái göngin í versta falli með 70% afslætti. Það er miklu betra en að þau verði fjármögnuð 100% eftir einhver ár. Þetta eru sjónarmið sem andstæðingar verkefnisin líta algjörlega framhjá og vilja ekki ræða. Menn geta svo rifist um umferð um göngin en reynslan hefur sýnt að umferðarspár Vegagerðarinnar hafa verið mjög varfærnar. Gott dæmi er umferðarspá um Héðinsfjarðargöng sem jókstu um 100%.”

Töluverð umræða hefur verið virðingu Alþingis og segist Höskuldur hafa tekið þá umræðu nokkuð nærri sér. “Ég held að hver og einn þingmaður ætti að í raun að taka þessa gagnrýni til sín, það er ekki endalaust hægt að benda á manninn við hliðina. Ég hef einbeitt mér að því að vera málefnalegur og sanngjarn í allri umræðu og reynt að hafa vaðið fyrir neðan mig, þegar kemur að orðræðunni. En því miður hafa einstaka þingmenn verið tilbúnir að setjast á herðarnar á þeim næsta til að upphefja sjálfan sig. Það er ósiður sem við verðum að losna við inn á Alþingi. Umræðan þarf að vera málefnalegri og við verðum að einbeita okkur að efnishliðum mála. Ef okkur tekst það held ég að virðing fyrir Alþingi muni aukast á ný. Það er margt gott fólk sem situr og allir hafa eitthvað til síns ágætis” segir Höskuldur.

Viðurkennir mistök

Í perónulegu lífi Höskuldar hafa skipst á skin og skúrir að undanförnu. Hann og Þórey Árnadóttir giftu sig í Akureyrarkirkju þann 21. apríl sl. Höskuldur segir að það hafi verið einhver besti dagur í lífi hans en saman eiga þau þrjú börn. Skömmu áður gerðist hann hins vegar sekur um að aka undir áhrifum áfengis, sem varð til þess að hann missti bílprófið í átta mánuði. “Ég gerði mikil mistök, sem fólust í því að setjast of snemma undir stýri eftir að hafa neytt áfengis. Mér finnst rétt að segja frá því. Lögreglan stöðvaði mig, það var tekin blóðprufa og ég missti bílprófið. Ég hafði verið á fundaferð um kjördæmið og fékk mér rauðvín í lok dags. Ég veit að fólk gerir meiri kröfur til mín sem alþingismanns, ég er miður mín yfir þessu en þetta er eitthvað sem ég verð að lifa með. Sem betur fer á ég góða að sem munu aðstoða mig á ferðum mínum um kjördæmið, ég mun því ekki láta þessi mistök hafa áhrif á störf mín” sagði Höskuldur.

 

 

 

Nýjast