Heimamenn hófu leikinn vel, voru mun meira með boltann og pressuðu gestina stíft án þess þó að ná að skapa sér marktækifæri. Það voru hinsvegar gestirnir í ÍR sem skoruðu fyrsta mark leiksins og það gegn gangi leikisins. Markið kom á 10. mínútu eftir hornspyrnu og var þar að verki Erlingur Jack Guðmundsson.
Heimamenn virtust slegnir útaf laginu og eftir markið komust gestirnir meira inn í leikinn. Heimamenn spýttu í lófana og á 32. mínútu tókst þeim að jafna metin. Þar var að verki Einar Sigþórsson er hann fékk boltann fyrir lappirnar eftir hornspyrnu og afgreiddi boltann í netið og staðan 1-1. ÍR-ingar voru nálægt því að bæta við öðru marki sínu í leiknum á 34. mínútu þegar þeir fengu dauðafæri inn í teig heimamanna. Tveimur mínútum síðar sluppu heimamenn aftur með skrekkinn er gestirnir áttu góðan skalla rétt framhjá markinu eftir hornspyrnu.
Staðan í hálfleik 1-1 og máttu heimamenn þakka fyrir að vera ekki mörkum undir.
Jafnræði var með liðunum í byrjun seinni hálfleiks. Á 53. mínútu fékk Atli Sigurjónsson ágætis færi fyrir heimamenn en skot hans fór framhjá markinu. Fjórum mínútum síðar fengu gestirnir úrvalsfæri þegar Guðfinnur Þórir Ómarsson komst einn í gegn en Atli Már Rúnarsson markvörður Þórs varði vel í markinu. Nokkrum mínútum síðar þurfti Atli aftur að taka á honum stóra sínum þegar hann varði vel skot gestanna sem voru sloppnir í gegnum vörn Þórs.
Stíf pressa ÍR- inga skilaði marki á 65. mínútu þegar Árnir Freyr Guðnason stakk sér á milli tveggja varnarmanna Þórs og skoraði framhjá Atli í marki heimamanna og kom gestunum í 2-1.
Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn. Hreinn Hringsson fékk ágætis færi á 71. mínútu þegar hann fékk fína sendingu inn í teig en hitti boltann skelfilega og skotið fór framhjá markinu. Hreinn fékk svo aftur ágætis færi á 90. mínútu en inn vildi boltinn ekki og lokatölur á Akureyrarvelli í kvöld 2-1 sigur ÍR.
Eftir þrjár umferðir hafa Þórsarar þrjú stig og sitja í 6. sæti deildarinnar.