Tæplega 2000 manns hafa skrifað undir mótmæli á því deiliskipulagi sem nú liggur fyrir um Drottningarbrautarreit á Akureyri og verða undirskriftirnar afhentar bæjaryfirvöldum í dag. Í tilkynningu sem Vilhjálmur Bergmann Bragason hefur sent frá sér fyrir hönd mótmælenda, er mikil andstaða á meðal bæjarbúa við þetta skipulag, en skipulagið hafi það í för með sér að mörg elstu og sögufrægustu hús bæjarins sem hafa átt sinn sess í bæjarmyndinni um árabil hverfi á bak við nýbyggingar. Bæjarráð Akureyrar virðist ætla að fórna þessari fallegu bæjarmynd fyrir skammtímahagsmuni og án þess að vega og meta hin sögulegu verðmæti sem eru í húfi til fulls, en þessar skipulagshugmyndir eru algjörlega úr takti við vilja bæjarbúa. Gríðarlegur fjöldi athugasemda hefur einnig borist frá ýmsum aðilum, bæði leiðsögumönnum og öðrum ferðaþjónustuaðilum sem telja þessar breytingar ekki til framdráttar fyrir ferðaþjónustu á Akureyri, en í því samhengi er bent á mikilvægi þess að standa vörð um það sem einkennir bæinn svo sterkt. Það er enginn á móti uppbyggingu og allir vilja bænum sínum vel og vona svo sannarlega að Akureyri vaxi og dafni. En þetta er ekki rétta leiðin, svo mikið er víst. Þá er mikil óánægja með skipulagið hjá íbúum á umræddu svæði, en hjá mörgum þeirra verða lóðir skertar, auk þess sem að flestir íbúar á svæðinu glata því útsýni sem þeir hafa að miklu eða öllu leyti. Hefur hópur íbúa á svæðinu nú þegar tekið sig saman og haft samband við lögfræðing, en ljóst er að Akureyrarbæ er ekki stætt á slíkum aðgerðum án þess að greiða bætur fyrir. Íbúar á svæðinu halda þó enn í þá von að bæjaryfirvöld hlusti á raddir bæjarbúa og sjái að sér áður en óafturkræfur skaði er skeður. Athygli vekur að sérstaklega mikil andstaða er við framkvæmdirnar á meðal ungs fólks og hafa margir haft orð á því að merkilegt sé að ungt og framsækið fólk skuli bera meira skynbragð á söguleg verðmæti og mikilvægi bæjarmyndarinnar heldur en fólkið sem starfar fyrir bæinn. Undirskriftum var safnað víða um bæinn, en einnig á netinu. Þar gátu mótmælendur einnig skilið eftir ummæli og nýtti fjöldi fólks sér þann möguleika, segir í tilkynningu Vilhjálms. Hann segir það einlæga von þeirra sem standa að mótmælunum að bæjaryfirvöld hlusti á raddir bæjarbúa og falli frá þessum áformum. Við skorum á yfirvöld að standa með sínu fólki og standa vörð um bæjarmynd Akureyrar.