Reynslan af íslensku stjórnkerfi sýnir að við þurfum að gera á því róttækar breytingar. Við þurfum raunverulegt lýðræði. Endurskoðun stjórnarskrárinnar getur orðið hornsteinn að því að samfélagið okkar þróist í lýðræðislega átt. Að því vil ég stuðla og býð mig þess vegna fram til Stjórnlagaþings.
Undanfarna áratugi hefur stjórnkerfið á Íslandi snúist um sjálft sig. Lagafrumvörp eru samin til að leysa vanda ríkisvaldsins fyrst og fremst. Frumvörp eru samþykkt í bunkum sem lög á Alþingi þing eftir þing án umræðu við aðra en sjálft framkvæmdavaldið sem bjó þau til. Dæmi eru um að lagafrumvörp séu samin og samþykkt án aðkomu nokkurs annars en einstaklingsins sem samdi frumvarpið að beiðni ríkisstofnunar.
Alþingi stimpilstofnun
Verklagið sem viðhaft er í íslensku stjórnkerfi á lítið skylt við lýðræði. Kerfislægt aðhalds- og gagnrýnisleysi þar sem framkvæmdavaldið fær að búa til lög og reglur í sína þágu og fær til þess stimpil Alþingis á miklu meira skylt við alræði ríkisvalds en lýðræði eins og ég skil það hugtak.
Sjálfhvert flokkakerfi
Íslenska flokkakerfið snýst um sjálft sig og hefur reynst ófært um að þróa stjórnkerfi okkar í þá átt sem fyrir löngu síðan var augljóst að þyrfti að gera. Við horfumst nú í augu við afleiðingar þessa fyrirkomulags.
Réttindi borgara í öndvegi
Ég vil segja skilið við alræði framkvæmdavaldsins á kostnað löggjafans og dómsvaldsins og búa til stjórnarskrá þar sem ekki fer á milli mála að réttindi borgaranna eru í öndvegi en ekki hagsmunir íslenska ríkisins, stjórnvalda eða sérhagsmunahópa.
Framboð mitt til Stjórnlagaþings snýst um einlægan vilja til að vinna að þessu. Að búa til grundvallarlög sem tryggja raunverulega þrískiptingu ríkisvaldsins og kjördæmaskipan og úthlutun þingsæta sem endurspeglar vilja kjósenda í landinu öllu.
Höfundur er í framboði til stjórnlagaþings.