Á fundinum lögðu forsvarsmenn Svínaræktarfélagsins fram tillögur til að efla búgreinina og stöðu hennar sem er ekki góð um þessar mundir. Tillögurnar eiga það allar sameiginlegt að vera ríkissjóði að kostnaðarlausu en skipta búgreinina miklu að sögn Ingva. Tillögurnar eru í 6 liðum og fjallar sú fyrsta um nauðsyn þess að afnema skilarétt smásala á kjöti, en rétturinn er sjálftekinn að sögn Ingva og kostar kjötvinnslur landsins hundruðir milljóna á ári. Þá er lögð áhersla á að innlend búvara sé merkt sérstaklega til aðgreiningar frá innfluttum matvælum, en innflytjendur hafa að sögn Ingva margoft orðið uppvísir að því að villa um fyrir neytendum á þessu sviði. Svínabændur vilja að fengin verði undanþága frá matvælalöggjöf ESB þegar og ef frumvarpið verður að lögum, enda muni innflutningur veikja mjög samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu enn frekar.
Þá vilja svínabændur að samningur um tollkvóta sem gerður var í mars 2007 verið endurskoðaður með það að markmiði að draga úr innflutningi á kjöti til landsins. Eins benda þeir á að breyta þurfi styrkjakerfi landbúnaðarins með aukna sjálfbærni í huga, m.a. þurfi að auka innlenda kornræt. Loks óska þeir eftir að orðið verði við óskum svínabænda um breytt fyrirkomulag á innflutningi á erfðaefni. Fyrir því hafi þeir barist um langt skeið án árangurs, en um mikið hagsmunamál sé að ræða. Um 100 störf eru á svínabúum hér á landi auk þess sem starfsemi búanna skapi hundruðir afleiddra starfa sem nauðsynlegt sé að verja á tímum aukins atvinnuleysis.