Elva Friðjónsdóttir átti þá sendingu inn í teig gestanna sem hafði viðkomu í varnarmanni Stjörnunnar og þaðan barst boltinn til Rakel Hönnudóttur sem skoraði af stuttu færi. Staðan 1-0.
Eftir markið fóru heimastúlkur hægt og bítandi að taka völdin í leiknum og Rakel Hönnudóttir var nálægt því að bæta við öðru marki Þórs/KA á 20. mínútu leiksins þegar hún rétt missti af boltanum eftir sendingu inn í teig gestanna. Leikmenn Stjörnunnar náðu lítið sem ekkert að ógna marki heimastúlkna í fyrri hálfleik og áttu aðeins eitt skot að marki. Staðan 1-0 í hálfleik.
Stjörnustúlkur lifnuðu við í upphafi seinni hálfleiks og komust betur inn í leikinn. Á sama tíma duttu heimastúlkur niður í kæruleysi og gestirnir voru nálægt því að jafna leikinn á 58. mínútu þegar sending fyrir mark Þórs/KA hafnaði í þverslánni og heimastúlkur sluppu með skrekkinn. Aðeins mínútu síðar komst Stjarnan í fínt færi en Halla Valey Valmundsdóttir varði vel í marki heimastúlkna.
Þegar líða fór á seinni hálfleikinn fór Þór/KA að sækja í sig veðrið. Rakel Hönnudóttir átti fínan sprett á 65. mínútu og fínt skot hennar fyrir utan teig var glæsilega varið af Söndru Sigurðardóttir í marki Stjörnunnar. Nokkrum mínútum síðar fékk Mateja Zver dauðafæri er hún fékk sendingu inn í teig gestanna frá Vesnu Smilkovic en skot hennar var varið.
Þegar komið var fram á 80. mínútu leiksins náðu gestirnir að jafna leikinn og það gerði Inga Birna Friðjónsdóttir með marki af stuttu færi. Staðan 1-1. Heimastúlkur urðu svo einum manni færri þegar Arna Sif Ásgrímsdóttir fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum á 89. mínútu. Bæði lið reyndu hvað þau gátu til að landa sigri í leiknum og Vesna Smiljkovic hjá Þór/KA var ansi nálægt að skora á uppbótartíma er hún fékk boltann inn í teig gestanna en skot hennar var naumlega varið.
Lokatölur á Þórsvellinum í kvöld, 1-1, og geta leikmenn Þórs/KA nagað sig í handarbökin yfir því að hafa ekki nýtt færin sín í leiknum betur. Að sama skapi getur Stjarnan þakkað markverði sínum, Söndru Sigurðardóttur, fyrir stigið þar sem hún bjargaði oftar en einu sinni fyrir Stjörnuna í leiknum með góðri markvörslu.
Eftir leikinn er Þór/KA í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig og er næsti leikur liðsins ekki fyrr en 8. september þar sem nú verður hlé í deildinni vegna EM í knattspyrnu sem fram fer í Finnlandi í lok ágúst.