Skólanefnd Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær, að sumarlokun leikskóla 2012 verði í tveimur tímabilum. Fyrra tímabilið verður frá 25. júní til 20. júlí og seinna tímabilið verður frá 9. júlí til 3. ágúst. Skólanefnd samþykkti jafnframt að þetta fyrirkomulag verði sett upp til þriggja ára þar sem leikskólum er raðað niður á tímabilin. Þessi niðurstaða skólanefndar tekur mið af umsögnum sem bárust frá starfsmönnum leikskóla og foreldraráðum auk þess sem horft var til niðurstaðna foreldrakönnunar frá vori 2011.
Á fundi skólanefndar var einnig fjallað um innritun í leikskóla á þessu ári. Sesselja Sigurðardóttir leikskólaráðgjafi gerði grein fyrir stöðu mála. Í máli hennar kom fram að nú bíða 9 börn fædd á árunum 2006-2009 eftir leikskólaplássi. Einnig kom fram að gert er ráð fyrir því að öll börn sem fædd eru á árinu 2010, sem um það sækja, fái pláss í leikskóla á árinu. Vegna þess hve stór árgangur 2010 er eða 315 börn, er nánast útilokað að börn sem fædd eru í janúar-mars 2011, komist inn í leikskóla á árinu, segir í bókun skólanefndar.
Þá var lögð fram tillaga að breytingu á reglum um innritun í leikskóla Akureyrarbæjar. Með breytingunni er verið að skýra betur innritunarferlið og skerpa á því að þegar að innritun kemur, ganga þeir fyrir sem eru skráðir með lögheimili í sveitafélaginu. Skólanefnd samþykkti tillöguna.