Skipið reyndist fengsælt og farsælt, allat þar til að fórst í aftakaveðri í apríl 1963, en í því veðri fórust 6 bátar við strendur landsins. Með Súlunni voru 11 manns og fórust 5 þeirra. Eftir slysið var keypt ný Súla til Akureyrar, en stoppaði stutt við. Árið 1967 kom Baldvin Þorsteinsson til Akureyrar með nýja Súlu frá Noregi og það er í grunninn það skip, sem kvaddi Akureyri í dag. Að vísu hefur það tekið breytingum, það hefur verið lengt, og hækkað, þannig að nú ber það 950 tonn, tók einungis 450 tonn í upphafi. Sverrir Leósson, útgerðarmaður og Bjarni Bjarnason, skipstjóri, keyptu útgerðina af Leó og gerðu skipið út með myndarskap síðustu áratugina. Þegar það lá í landi var það gjarnan nýmálað við Torfunefið, eins konar kennileiti á Akureyri. Súlan var lengst af með aflahæstu skipum og það þótti enginn akureyrskur sjómaður sjóaður fyrr en hann hafi verið á Súlunni. Fyrir nokkrum árum keypti Síldarvinnslan skipið, en það hefur lítið verið notað. Við skoðun í vor kom í ljós tæring í botntönkum og ekki talið hagkvæmt að fara í viðgerð á svo gömlu skipi. Þess vegna var það selt í brotajárn til Belgíu. Það má því segja, að útgerðarsaga Súlunnar frá Akureyri í heila öld byggist á tveimur skipum frá Noregi, eikarskipi og stálskipi, sem hvort um sig entist í ríflega hálfa öld. Baldvin Þorsteinsson, Hrólfur Gunnarsson og Bjarni Bjarnason voru lengst af skipstjórar á nýrri Súlunni. Bjarni var þar um borð í 40 ár, þar af í 30 ár sem skipstjóri.
Súlan kvaddi Akureyri í síðasta sinn í morgun, en kemur við á Ólafsfirði, Bolungarvík og í Neskaupsstað til að taka brotajárn með til Belgíu. Leifur Þormóðsson, skipstjóri, sigldi skipinu frá Akureyri og tók einn heiðurshring á Pollinum og flautaði í kveðjuskyni.