Hermann Jón flutti stutt ávarp á fundinum sem hann segir að boðað hafi verið til í því skyni að ræða mögulega styttingu þjóðvegar 1 með því að leggja veg um svokallaða Svínavatnsleið. Með slíkum vegi myndi leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur styttast um allt að 15 kílómetra. Bæjarstjóri segir að Húnvetningum lítist misvel á þessa hugmynd, þeir óttist m.a. að í kjölfar þess að Blönduós verður ekki lengur í þjóðbraut muni það koma niður á atvinnurekstri í bæjarfélaginu.
"Ýmislegt bendir þó til þess að áhrifin þar þurfi ekki að verða veruleg. Ég lagði áherslu á það í
máli mínu að það væru hagsmunir allra sem ferðast þurfa á milli Norðausturlands og Suðvesturlands að stytta þessa leið sem
mest," segir Hermann Jón. Þá minntist hann á þau fyrirtæki sem betur gætu þrifist ef leiðin styttist og hélt þvi
sjónarmiði fram að í raun gæti ákvörðun í þessa veru orðið til þess að styrkja landsbyggðina alla. „Ljóst
er að það eru ekki margir aðrir möguleikar á að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur en vissulega má bæta hana víða,"
segir Hermann Jón.
Tilefni fundarins var að kynna íbúum þeirra svæða sem mögulegar vegstyttingar eru til skoðunar þær hugmyndir sem uppi eru og fá fram
viðhorf þeirra og fulltrúa þeirra. Um er að ræða sveitarfélögin Húnavatnshrepp og Blönduósbæ þar sem svonefnd
Svínavatnsleið er til skoðunar og Sveitarfélagið Skagafjörð og Akrahrepp þar sem til skoðunar hefur verið stytting um 6 km um svonefnda
Vindheimaleið Að framsögum loknum spunnust líflegar umræður um vega- byggða- og skipulagsmál og sýndist sitt hverjum. Þó kom fram almenn
ánægja með að þessi fundur skyldi haldinn sem í raun varðaði allt Norðurland, en slíkir fundir hefðu ekki verið haldnir fyrr.