Styrktarsamningar undirritaðir vegna Landsmóts UMFÍ á Akureyri

Í dag var ritað undir samstarfssamninga Ungmennafélags Íslands og Landsmótsnefndar við fimm fyrirtæki vegna 26. Landsmóts UMFÍ á Akureyri 9.-12. júlí á Akureyri í sumar. Aðalstyrktaraðilar Landsmótsins eru  Alcoa Fjarðaál og KEA, en einnig leggja Icelandair Group, Saga Capital og Landsbankinn mótshaldinu lið með myndarlegum hætti.  

Í ár eru hundrað ár liðin frá því að fyrsta landsmót ungmennafélaganna var haldið  á Akureyri og verður þessara tímamóta minnst með ýmsum hætti á mótinu í sumar.  Miðpunktur mótshaldsins verður á nýjum íþróttaleikvangi Akureyrarbæjar á félagssvæði Íþróttafélagsins Þórs, en óhætt er að segja að íþróttamannvirki Akureyrar verði meira og minna undirlögð alla mótsdagana og ýmsir aðrir viðburðir sem tengjast Landsmótinu gera það að verkum að Akureyri mun iða af mannlífi mótsdagana. Gert er ráð fyrir að keppendur á Landsmótinu verði á annað þúsund og gestir 10-20 þúsund.  Keppnisgreinarnar á mótinu verða um tuttugu auk átta starfsgreina, fimm kynningargreina og íþróttagreina fyrir eldri ungmennafélaga.

"Samstarfssamningar við þessi fimm fyrirtæki eru ein af mikilvægum forsendum þess að við getum haldið glæsilegt Landsmót UMFÍ á Akureyri í sumar og minnst þess að hundrað ár eru liðin frá því að fyrsta landsmótið var haldið, einmitt hér í bænum. Í þeim efnahagslega ólgusjó sem yfir landið hefur gengið á liðnum mánuðum hefur síður en svo  verið sjálfgefið að  fá fyrirtæki til samstarfs um viðburð eins og Landsmót UMFÍ, en við höfum notið mikils skilnings og velvilja hjá þessum samstarfsfyrirtækjum og fyrir það erum við afar þakklát.  Það er greinilegt að mikill vilji er til þess að slá skjaldborg um viðburð eins og landsmótin. Nú er það verkefni okkar mótshaldara að standa fyrir glæsilegu og eftirminnilegu afmælislandsmóti og við munum sannarlega leggja okkur fram um það," segir Kristján Þór Júlíusson, formaður Landsmótsnefndar UMFÍ 2009.

Nýjast