Aðalfundur Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga fyrir árið 2016 var haldinn s.l. þriðjudag. Í fyrra voru liðin 20 ár frá stofnun félagsins og af því tilefni flutti Aðalbjörg Pálsdóttir, sem sat í fyrstu stjórn félagsins, nokkur orð um starfsemina fyrstu árin.
Á fundinum lét Kristín Arinbjarnardóttir af starfi gjaldkera eftir margra ára fórnfúst starf og var henni færður blómvöndur af þessu tilefni í þakklætisskyni.
Formaðurinn Auður Gunnarsdóttir flutti skýrslu stjórnar og kom víða við og minnti í upphafi á að tilgangur styrktarfélagsins er að vera stuðningsaðili Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, en sá stuðningurinn er bundinn við starfsstöðvarnar í Þingeyjarsýslum.
Fjáröflun félagsins er fyrst og fremst með innheimtu árgjalda félagsmanna, sölu minningarkorta, frjálsum framlögum og peningagjöfum.
Að sögn Auðar var félagið mjög duglegt að styrkja Heilbrigðisstofnunina á síðasta ári og sennilega um að ræða met frá stofnun. „Við gáfum til Heilbrigðisstofnunarinnar, tæki og tól, alls 16 gjafir fyrir samtals kr. 14.629.086.- Dýrustu tækin í þessari upphæð eru hjartalínuriti, lyftubaðstóll, (sem Lionsklúbbur Húsavíkur lagði fé til), blöðruskanni, hjartahnoðtæki, sem fór í sjúkrabílinn á Þórshöfn og svo hjartaþolprófstæki, sem farið var í sérstakt átak fyrir, þar sem sjóðir áttu ekki nægilegt fjármagn, en brýn þörf var á þessu tæki. Fyrirtæki, einstaklingar og félög brugðust vel við og ber þar hæst Trésmiðjuna Rein og Lionsklúbb Húsavíkur.“ Sagði Auður
Ásgeir Böðvarsson, yfirlæknir þakkaði enn og aftur veittan stuðning og sagði að það væri svo einfalt að ef Styrktarfélagið hefði ekki safnað fyrir þessum tækjum, þá væru þau einfaldlega ekki til á stofnuninni, þar sem engar fjárveitingar fengjust til kaupanna, þannig að án þessa stuðnings væri þjónustan og starfsemin fátæklegri sem því næmi. Þessi starfsemi væri því einfaldlega ómetanleg með öllu fyrir stofnunina, starfsfólkið en þó kannski fyrst og fremst fyrir íbúa á svæðinu.
Jón Helgi Björnsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, var á fundinum. Hann þakkaði einnig með fáum orðum og sagði að það gengi bara ágætlega hjá þessari starfsstöð HSN hér, vel gengi að manna hana, hér væri, m.a. fyrir tilstilli Styrktarfélagsins, góður tækjabúnaður og þá væri afar hæft starfsfólk til staðar. Og hann gat þess að nýtt fólk væri að koma til starfa og m.a. væri búið að ráða fjóra nýja hjúkrunarfræðinga.
Hann minntist í lokin fyrrum framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Friðfinns Hermannssonar og áhrifa hans á allt starf á þessum stað. Og taldi að það væri vel að starfa áfram í þeim jákvæða anda sem Friðfinnur skóp á sínum árum á HÞ.
Fram kom á fundinum að Styrktarfélagið nýtur stuðnings og velvilja í Þingeyjarsýslum. En það má alltaf gera betur og íbúar svæðisins því hvattir til að gerast styrktarfélagar og styðja með þeim hætti starfsemina. Það er hægt að ská sig með því að fara inn á heimasíðuna hsn.is/husavík, en þar er Styrktarfélagið með sérstaka síðu.
Frjáls fjárframlög eru alltaf vel þegin og hægt að leggja þau inn á reikning, en banka- og reikningsnúmer félagsins er: 1110-26-001060 kennitala: 520296-2479. JS