Styrkir veittir vegna vinnufram- lags við Handverkshátíðina

Fulltrúar sýningarstjórnar Handverkshátíðar á Hrafnagili afhentu í vikunni félagasamtökum sem unnu að sýningunni styrki vegna vinnuframlags þeirra í tengslum við framkvæmdina. Sýningin sem haldin var á Hrafnagili dagana 7. - 10. ágúst var sú best sótta í sautján ára sögu Handverkshátíða á Hrafnagili þar sem  um 20.000  gestir heimsóttu hana. Hátíðin var einn af stærstu viðburðum ársins hérlendis og stefna forsvarsmenn hennar að því að gera enn betur næst.  

Að þessu sinni var fyrirkomulagið í tengslum við hátíðina með öðru sniði en verið hefur þar sem félagasamtökum í sveitarfélaginu bauðst að nýta sér verkefni tengd sýningunni sem fjáröflun. Nægir þar að nefna vinnu við uppsetningu á tjöldum, eftirlit á sýningarsvæði, miða- og veitingasölu og fleira. Þessir aðilar voru m.a. Hjálparsveitin Dalbjörg,  Ungmennafélagið Samherjar,  Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi, og Kvenfélögin Aldan-Voröld og Hjálpin.   Ljóst er að þessar styrkveitingar hafa umtalsverða þýðingu fyrir marga af þeim aðilum sem tóku þátt í verkefninu enda hafa félagasamtök þurft að leita nýrra leiða hvað fjáröflun varðar á undanförnum misserum.

"Það er óhætt að segja að þetta nýja fyrirkomulag hafi reynst afar vel og að almenn ánægja hafi verið á meðal allra þeirra sem að komu" segir Stefán Árnason sem situr í sýningarstjórn Handverkshátíðarinnar ásamt Arnari Árnasyni. "Það varð ljóst í lok síðasta árs að erfitt yrði að halda Handverkshátíð með óbreyttu sniði og var því ákveðið að fara þessa leið. Með henni gat sveitarfélagið áfram staðið fyrir þessari menningarhátíð auk þess sem félagasamtökum í sveitinni gafst kostur á að vinna að fjáröflun með því að leysa verkefni tengd framkvæmdinni", sagði Stefán ennfremur.

Í sama streng tekur Dóróthea Jónsdóttir framkvæmdastjóri Handverkshátíðar. Hún segir reynsluna af síðustu hátíð vera afar jákvæða og sína ótrúlega samstöðu íbúa Eyjafjarðarsveitar. Dóróthea hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Handverkshátíðarinnar 2010 og segir hún undirbúning þegar vera hafinn. Handverkshátíðin á Hrafnagili verður haldin dagana 6. - 9. ágúst 2010 en nánari upplýsingar má sjá á http://www.handverkshatid.is/ .

Nýjast