Styðja þarf nýsköpunarstarf fyrir einstaklinga með skerta vinnugetu

Á aðalfundi Hlutverks - Samtaka um vinnu og verkþjálfun nýlega var rætt um stöðu atvinnu- og hæfingarmála fatlaðra einstaklinga. Fram kom að mikill sóknarhugur er hjá sambandsaðilum og að mikil nýsköpun og hugmyndaauðgi einkennir starfsemina til að bregðast við erfiðu efnahagsástandi.  Samdráttur er í verkefnum og vinnu og atvinnutilboðum fyrir einstaklinga með skerta vinnugetu fækkar  

Hlutverk beinir þeirri áskorun til stjórnvalda og sveitarfélaga að það sé mikilvægt að  styrkja og tryggja áframhaldandi starfsemi þeirra aðila sem þjónusta þá einstaklinga sem búa við mikla fötlun og skerðingu. Styðja þarf sérstaklega það nýsköpunarstarf sem þegar fer fram hjá vinnu- og þjálfunarstöðum fyrir einstaklinga með skerta vinnugetu. Gera þarf vinnustöðunum kleift að þróa nýja framleiðslu m.a með nýju fjármagni til þróunarstarfs. Huga þarf sérstaklega að starfi hæfingarstöðva sem veita þeim þjónustu  sem búa við  minnsta starfsgetu. Hagræðing og sparnaður í rekstri má ekki bitna á þjónustu við þennan hóp. Mikilvægt er að stuðla að jafnstöðu fatlaðra og ófatlaðra. Því þarf að standa vörð um  starfsemi þeirra sem þjónusta og veita atvinnu þeim einstaklingum sem búa við mikla fötlun og skerta vinnugetu.

Hlutverk leggur áherslu á að allir taki höndum saman um að tryggja og standa vörð um það velferðarþjóðfélag sem tryggir jafnstöðu og afkomu allra. Fundurinn skorar því á atvinnurekendur og samtök þeirra að hvetja fyrirtæki sem aðild eiga að samtökunum að ráða fólk með skerta starfsgetu  og  að gera sérstakt átak til að skapa ný atvinnutækifæri fyrir þá sem standa höllum fæti á vinnumarkaðinum. Hlutverk skorar einnig á atvinnurekendur að beina verkefnum til og leita samstarfs við vinnustaði sem veita fötluðum einstaklingum atvinnu.

Skera þarf upp herör gegn starfsemi þeirra aðila sem stunda svarta atvinnustarfsemi og taka verkefni frá fyrirtækjum sem eru í alvöru rekstri.  Þessi ,,fyrirtæki" og starfsemi þeirra skilar gjarnan engum sköttum og gjöldum til samfélagsins og þau eyðileggja möguleika alvöru fyrirtækja í heilbrigðri samkeppni. Að lokum minnir Hlutverk á að meðal einstaklinga með skerta vinnugetu eru margar vinnufúsar hendur. Þennan mannauð þarf að nýta. Hlutverk minnir á að við þær aðstæður sem nú ríkja er mikilvægt að allir sýni samfélagslega ábyrgð og hvetur því íslenska framleiðendur og nýsköpunar- og þjónustufyrirtæki og aðra aðila vinnumarkaðarins til samstarfs við vinnu- og hæfingarstaði fatlaðra, segir í ályktun aðalfundarins.

Nýjast