Stórleikur í fótbolta á nýja íþróttasvæði Þórs í kvöld

Það verður sannkallaður stórleikur í kvöld þegar Þór tekur á móti grönnum sínum í KA á nýja íþróttasvæði Þórs við Hamar, í 1. deild karla í knattspyrnu. Fyrir leikinn munar fimm stigum á liðunum, KA er í fjórða sæti með 20 stig en Þór í áttunda sæti með 15 stig. „Þetta er frekar stór dagur, bara það stærsta sem maður hefur gert held ég í fótboltanum," segir Einar Sigþórsson leikmaður Þórs.  

„Stemmningin er góð fyrir leikinn í kvöld. Það er búið að vera gott tímabil hjá okkur núna undanfarið þar sem við höfum unnið þrjá leiki í röð. Það er að sjálfsögðu mikil tilhlökkun í okkar herbúðum fyrir leikinn. Þór og KA að spila á nýjum velli, þetta gerist varla betra og við ætlum að sýna í kvöld að við getum spilað fótbolta," segir Einar. Fyrirliði KA, Arnar Már Guðjónsson, segir sína menn fulla tilhlökkunar fyrir leikinn. „Stemmningin er góð og leikurinn leggst vel í okkur. Það verður gaman að spila á nýjum velli og við förum fullir sjálfstraust í leikinn eftir sigurleikinn gegn Selfyssingum. Þórsarar eru líka komnir á fullt skrið í deildinni þannig að þetta verður hörkuleikur," segir Arnar Már.

Leikurinn í kvöld hefst kl. 19:15 en dagskrá hefst á leikvanginum hálftíma fyrr eða 18:45 þar sem bæjarstjórinn á Akureyri, Hermann Jón Tómasson mun flytja ávarp, ásamt Geir Þorsteinssyni formanni KSÍ og Sigfúsi Helgasyni formanni Þórs. Vinir Sagga, stuðningsmannaklúbbur KA, ætla að grilla á flötinni beint á móti Þórssvæðinu, eða frjálsíþróttasvæðinu við Skarðshlíð eins og þeir vilja kalla það. Hefst grillið klukkan 17:30 og eru allir KA menn hvattir til þess að mæta og hita upp fyrir leikinn og taka þátt í gleðinni. Einnig munu Mjölnismenn, stuðningsmannaklúbbur Þórs, hita upp fyrir leikinn og verða þeir með knattþrautir við Hamar og verða verðlaun í boði. Þá munu þeir einnig selja Mjölnisboli á staðnum.

Nýjast