„Þetta var virkilega gaman og ég er mjög stolt af hópnum,“ segir Ásta Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfari en íbúar á Hlíð á Akureyri voru þátttakendur í alþjóðlegri hjólakeppni á milli hjúkrunarheimila og gerðu þeir sér lítið fyrir og lentu í öðru sæti. Keppnin stóð yfir í 4 vikur og þegar upp var staðið höfðu íbúar á Hlíð hjólað tæplega 12 þúsund kílómetra.
Keppnin heitir Road Worlds for Seniors og er þetta í fjórða sinn sem Akureyringar taka þátt í henni. Norska fyrirtækið Motitech stendur á bak við keppnina og fulltrúar þaðan höfðu samband við tvö dvalarheimili á Íslandi á sínum tíma, Hlíð og Droplaugarstaði, kynntu þann búnað sem til þarf og buðu upp á þátttöku. Um 240 lið frá 11 löndum taka þátt í keppninni.
11.945 kílómetrar
Hjólin voru tekin í notkun á Hlíð árið 2017 og hafa íbúar staðið sig með mikilli prýði fram til þessa, þeir hafa verið í 3. 4. og 5. sæti. Árangurinn nú er sá besti, annað sæti og voru hjólaðir 11.945 kílómetrar í allt. „Það er frábær árangur, „ segir Ásta, en í fyrra hjóluðu íbúar 9.063 kílómetra.Íbúar á dvalarheimili í Bruyere Villages í Ottawa í Kanada báru sigur úr býtum í ár, hjóluðu alls 14.271 kílómetra.
„Það voru í allt rúmlega 50 manns sem tóku þátt í keppninni, en sumir hjóluðu meira en aðrir. Sennilega hafa þetta verið á bilinu 10 til 12 manns sem voru mjög virkir og hjóluðu tvisvar á dag,“ segir Ásta.
/MÞÞ